Handbolti

Valsmenn fá tvo leikmenn úr Íslandsmeistaraliði ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Rúnarsson, Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert.
Anton Rúnarsson, Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert. Vísir/Vilhelm
Valsmenn eru heldur betur búnir að styrkja liðið sitt fyrir átökin í Olís deild karla í handbolta næsta vetur en Hlíðarendaliðið missti báða stóru titlana til Eyja í vetur.

Valur tilkynnti um þrjá nýja leikmenn á blaðamannafundi í Valsheimilinu í dag. Tveir þeirra koma úr Íslandsmeistaraliði ÍBV og sá þriðji er markvörður á leiðinni heim úr atvinnumennsku

Þetta eru þeir Agnar Smári Jónsson frá ÍBV, Róbert Aron Hostert frá ÍBV og Daníel Freyr Andrésson frá Ricoh í Svíþjóð. Þá var tilkynnt um framlengingu á samningi hjá Antoni Rúnarssyni.

Agnar Smári spilar sem örvhent skytta, Róbert Aron getur bæði spilað sem skytta og leikstjórnandi og Daníel Freyr er markvörður.

Agnar Smári og Róbert Aron urðu báðir þrefaldir meistarar með Eyjaliðinu á nýloknu tímabili og hjálpuðu ÍBV-liðinu líka að verða Íslandsmeistari vorið 2014.

Róbert Aron skoraði 38 mörk í 9 leikjum í úrslitakeppninni í ár (4,2 mörk í leik) en 85 mörk í 20 leikjum í deildarkeppninni (4,3 mörk í leik). Róbert Aron varð Íslandsmeistari í þriðja sinn í vor en hann vann titilinn einnig með Fram árið 2013.

Agnar Smári skoraði 28 mörk í 8 leikjum í úrslitakeppninni í ár (3,5 mörk í leik) en 102 mörk í 22 leikjum í deildarkeppninni (4,6 mörk í leik). Agnar Smári var ennfremur með 12 mörk í bikarúrslitaleiknum.

Daníel Freyr Andrésson var markvörður FH-liðsins þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2011. Hann hefur spilað undanfarin fjögur ár í Danmörku (með SönderjyksE) og í Svíþjóð (með Ricoh).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×