Innlent

Dagur segir nýjan meirihluta í burðarliðnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar flokkanna funduðu í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti í dag.
Fulltrúar flokkanna funduðu í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti í dag. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Góður andi er í hópi flokkanna fjögurra sem ræða nú um myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavík og traust í samskiptum þeirra að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar. Hann segir nýjan meirihluta í burðarliðnum. Oddviti Viðreisnar segir viðræðurnar hafa verið árangursríkar fram að þessu.

Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata hafa fundað í gær og í dag. Í vikulegum pistli sínum sem borgarstjóri segist Dagur bjartsýnn á að vel muni ganga. Flokkarnir hafi tíma til 19. júní til að ljúka viðræðunum þegar borgarstjórn kemur næst saman og þeir ætli sér að nýta tímann vel.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, tjáði sig um gang viðræðnanna á Facebook-síðu sinni nú síðdegis. Þar sagði hún fyrstu tvo daga formlegra viðræðna flokkanna hafa verið skemmtilega og árangursríka.

„Við höfum algjörlega einbeitt okkur að málefnunum enda skipta þau langmestu. Markmiðið er að mynda öflugan, traustan og samhentan meirihluta sem á næstu fjórum árum mun einfalda líf borgarbúa. Umræður um sætaskipan hafa ekki átt sér stað enn sem komið er og engar kröfur hafa verið settar fram, hvorki af okkur í Viðreisn né öðrum,“ skrifar hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×