Innlent

Grafarþögn í Kópavogi

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Algjör þögn ríkir um myndun meirihluta í Kópavogi og óljóst hvort Sjálfstæðismenn ætli að halda áfram núverandi meirihlutasamstarfi. Nýir bæjarstjórar taka við störfum í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum og nýr meirihluti á Akureyri hyggst ráða bæjarstjóra.

Lending náðist í Hafnarfirði í gær um samstarf Sjálfstæðisflokksins og lista Framsóknar og óháðra, sem mynda meirihluta 6 bæjarfulltrúa af 11. Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins verður nýr bæjarstóri.

„Það leggst mjög vel í mig að taka við þessu starfi. Ég hef verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í tólf ár og þekki verkefnin, þekki hlutverkið, þekki þau störf sem þarf að ráðast í,“ segir Rósa.

Segir Harald hafa bjargað Hafnarfirði

Rósa tekur við starfinu af Haraldi Líndal Haraldssyni sem var faglega ráðinn af fyrri meirihluta.

„Haraldur hefur reynst okkur ákaflega vel og var frábær í þeim verkefnum sem við þurftum að ráðast í í upphafi síðasta kjörtímabils, að taka til í rekstrinum og taka á fjármálunum. Hreinlega bjarga Hafnarfirði í þeim málum,“ segir Rósa.

Hún segir það hins vegar hafa verið sameiginlega lendingu flokkanna að hún tæki nú við stöðunni. Í Kópavogi hefur ekkert heyrst af viðræðum, en þar hélt meirihlutinn í kosningunum. Í samtali við kvöldfréttir í gær kvaðst Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti sameiginlegt framboðs Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, hins vegar ekkert hafa heyrt frá Sjálfstæðismönnum.

„Ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem er að trufla þá,“ sagði Theodóra í gær.

Ekkert heyrst frá bæjarstjóra

Engar nýjar upplýsingar hafa fengist frá Theodóru í dag og ekki hefur náðst í bæjarstjórann Ármann Kr. Ólafsson þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sömu sögu er að segja um Birki Jón Jónsson oddvita Framsóknarflokksins.

Á Akureyri hafa L-listi, Framsókn og Samfylking hins vegar myndað sex manna meirihluta, og stendur til að ráða bæjarstjóra. Í höfuðborginni héldu Samfylking, Píratar, Vinstri Græn og Viðreisn áfram viðræðum í dag og funduðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Í Vestmannaeyjum hafa svo framboð Eyjalistans og H-listans náð saman um samstarf, en oddviti þess síðarnefnda verður nýr bæjarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×