Körfubolti

Thompson sektaður fyrir ósætti í lok fyrsta leik úrslitanna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það sauð upp úr á milli Thompson og Draymond Green
Það sauð upp úr á milli Thompson og Draymond Green vísir/getty
Tristan Thompson var sektaður fyrir hegðun sína undir lok fyrsta leiks Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors í úrslitarimmu NBA deildarinnar í körfubolta.

Thompson, sem leikur með Cleveland, þarf að greiða 25 þúsund dollara í sekt fyrir að „yfirgefa ekki völlinn eftir að vera rekinn út af og kasta boltanum í andilt Draymond Green,“ segir í tilkynningu frá Kiki VanDeWeghe, einum formanna deildarinnar.

Thompson fékk dæmda óíþróttamannslega villu af stærðargráðu 2, sem þýddi að hann var rekinn í sturtu, en forráðamenn deildarinnar hafa lækkað villuna í stærðargráðu 1 sem þýðir að hann þarf ekki að fara í leikbann.

Villan kom eftir að Shaun Livingston átti stökkskot þegar aðeins fimm sekúndur voru eftir í leiknum og Golden State var 122-114 yfir. Thompson mótmælti skotinu og sauð upp úr á milli hans og Green.

„Ég mótmælti skoti sem hefði aldrei átt að vera tekið,“ sagði Thompson eftir leikinn við ESPN. „Það er óskrifuð regla í deildinni að ef þú ert með meira en tíu stiga forystu og 20 sekúndur eftir þá tekur þú ekki svona skot. Ég mótmælti og var rekinn út af. Ég veit ekki afhverju ég var rekinn af velli.“

Leikur tvö í einvíginu fer fram aðfaranótt mánudags. Golden State er ríkjandi meistari og er með 1-0 forystu í einvíginu.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×