Innlent

Telur ríkisstjórnarsamstarfið hafa ráðið úrslitum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna segir að úrslit í borgarstjórnarkosningum séu skýr skilaboð kjósenda til Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna segir að úrslit í borgarstjórnarkosningum séu skýr skilaboð kjósenda til Vinstri grænna. Vísir/Egill
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er þeirrar skoðunar að kjósendur Vinstri grænna hafi refsað flokknum í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum fyrir að hafa farið í ríkisstjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Rósa Björk var beðin um að rýna í úrslit sveitarstjórnarkosninga í Sprengisandi í morgun. Þar segir hún að úrslitin séu skýr skilaboð kjósenda til Vinstri hreyfingarinnar. Áherslur flokksins þurfi að birtast með skýrari hætti í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu öllu.

„Svo held ég að við getum heldur ekki horft framhjá því að þetta ríkisstjórnarsamstarf er umdeilanlegt meðal kjósenda VG og félaga.“

Spurð hvort það hafi ráðið úrslitum svarar Rósa Björk um hæl: „tvímælalaust“.

Rósa Björk og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, voru á móti ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hlaut 4,6% atkvæða í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum og komst Líf Magneudóttir, því ein frambjóðenda inn í borgarstjórn.

Í síðustu borgarstjórnarkosningum, árið 2014, fékk flokkurinn 8,3% atkvæða og tapar því 3,7% fylgi frá því síðast var kosið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×