Körfubolti

Curry setti met er Warriors pakkaði Cleveland saman

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Curry fagnar í nótt.
Curry fagnar í nótt. vísir/getty
Meistarar Golden State Warriors eru komnir í 2-0 í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar gegn Cleveland Cavaliers. Warriors vann örugglega í nótt, 122-103.

Stephen Curry setti met í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar með því að skora níu þriggja stiga körfur í nótt. Hann endaði með 33 stig og 8 stoðsendingar. Fimm af þristunum níu komu í síðasta leikhlutanum.

„Það er ansi svalt að hafa nælt í þetta met. Á endanum snýst þetta samt allt bara um sigurinn. Þetta var samt sérstakt kvöld. Vonandi verða næstu leikir líka sérstakir og við nælum í tvo sigra í viðbót,“ sagði Curry.





Curry sagði að hans menn hefðu farið vel yfir leik 1, sem þeir unnu naumlega, og lært af honum.

„LeBron var ótrúlegur í þeim en við vorum samt ekki nógu grimmir. Við bættum varnarleikinn núna en við getum enn bætt okkur.“

Kevin Durant skoraði 26 stig fyrir Warriors í leiknum og Klay Thompson bætti 20 við.

LeBron James var frábær í liði Cleveland eins og vanalega. Skoraði 29 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Kevin Love næstur með 22 stig og 10 fráköst.

Næstu tveir leikir einvígisins fara fram í Cleveland.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×