Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Fylkir 2-1 | Grindavík í toppsætið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindvíkingar hafa byrjað mótið frábærlega.
Grindvíkingar hafa byrjað mótið frábærlega. vísir/daníel
Grindavík vann karaktersigur á Fylkismönnum á heimavelli sínum í kvöld. Fylkismenn komust yfir á 5.mínútu en Grindavík tók völdin á vellinum í síðari hálfleik og skoraði þá tvö mörk. Will Daniels skoraði sigurmarkið á 88.mínútu en Björn Berg Bryde hafði áður jafnað úr víti.

Leikurinn var ekki gamall þegar Hákon Ingi Jónsson skoraði fyrir Fylkismenn. Hann fékk boltann frá Ragnari Braga Sveinssyni sem hafði sloppið í gegn og vörn Grindavíkur var sofandi og Hákon náði að skora.

Fylkismenn voru þéttir fyrir eftir markið og heimamenn áttu í vandræðum með að brjóta varnarmúr þeirra á bak aftur. Þeir sköpuðu sér ekki mörg færi og Aron Snær Friðriksson í marki Fylkis varði það sem á markið kom.

Í síðari hálfleik tóku Grindvíkingar síðan völdin. Þeir voru mikið sterkari og sóttu linnulaust í upphafi hálfleiksins. Fylkismenn fengu reyndar ágætis tækifæri úr sínum skyndisóknum þegar á leið og bæði Ragnar Bragi Sveinsson og Hákon Ingi fóru illa með fín færi í hálfleiknum.

Á 63.mínútu fengu heimamenn síðan heldur ódýra vítaspyrnu eftir að Aron Jóhannsson féll þegar hann reyndi skot að marki. Björn Berg Bryde steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, hans annað mark í sumar.

Áfram héldu heimamenn að sækja og sóknarþunginn bar árangur undir lokin. Will Daniels, sem hafði komið inn sem varamaður, átti þá skot sem fór í gegnum þvögu leikmanna í teignum og endaði í fjærhorninu.

Fylkismenn voru nálægt því að jafna alveg í blálokin en heimamönnum tókst að bjarga og fögnuðu sigrinum vel í lokin enda toppsætið staðreynd.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir pressuðu Fylkismenn mikið í seinni hálfleiknum og náðu tveimur mörkum. Fylkismenn nýttu ekki þau góðu færi sem þeir fengu og það er dýrt í leik eins og þessum.

Fylkismenn lokuðu vel á sóknaraðgerðir heimamanna í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari voru Grindvíkingar miklu hraðari og beinskeyttari og Aron Snær þurfti oft að hafa fyrir hlutunum í marki Fylkis.

Grindvíkingar voru þó heppnir því færin sem fóru í súginn hjá gestunum voru góð.

Þessir stóðu upp úr:

Aron Snær var góður í marki Fylkis sem og Kristijan Jajalo í marki heimamanna. Sító ógnaði ágætlega í framlínu heimamanna og þá var Jón Ingason öflugur í vörninni.

Hjá Fylki var Hákon Ingi Jónsson frískur í framlínunni en hefði vissulega átt að nýta færin sín betur.

Hvað gekk illa?

Mönnum gekk afar illa að halda sér á fótum í leiknum og oft á tíðum runnu þeir í grasinu. Mark Fylkis kom eftir að einn leikmaður heimamanna rann og skildi eftir opið svæði í vörninni og meira að segja Þóroddur dómari flaug á hausinn í fyrri hálfleiknum.

Hvað gerist næst?

Grindavík er komið á toppinn og fær annan heimaleik á laugardaginn þegar þeir taka á móti Breiðablik. Fylkir heldur áfram með Suðurnesjaþemað og tekur á móti Keflavík í Egilshöll en það verður aðeins þeirra þriðji heimaleikur á tímabilinu.

Óli Stefán: Toppsætið skiptir mig engu máli núna
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur.Vísir/Andri Marínó
„Eftir að við lentum undir á pínu óheppilegan máta þá brást liðið vel við. Það tók tíma því þeir voru þéttir til baka en við vorum þolinmóðir og eftir því sem leið á leikinn vorum við snarpari og fundum betri stöður. Við vorum að fá færi og gott framlag. Frábær frammistaða hjá mínum mönnum í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn á Fylki í kvöld.

Grindavík tyllti sér á toppinn með sigrinum og þeir eru með tveggja stiga forskot á stórveldin Val og FH sem koma í sætunum þar á eftir.

„Ég var aðallega glaður að sjá boltann fara inn hjá Will (Daniels). Hann hefur unnið vel fyrir þessu og ég er rosalega ánægður fyrir hans hönd. Toppsætið skiptir mig engu máli núna, þetta er bara stigasöfnun og við fáum þrjú stig í safnið núna. Við erum afskaplega ánægður með það.“

Grindvíkingar náðu mikilli pressu á gestina á köflum í síðari hálfleik þrátt fyrir að Fylkismenn hafi fengið hættuleg færi í skyndisóknum.

„Við vorum ekkert að breyta neinni aðferðafræði. Við vorum bara skarpari og það var meiri vilji. Við fórum yfir það í hálfleik, af því að við klikkuðum í markinu, að vinna það upp og bæta fyrir þau mistök. Það voru allir tilbúnir að fara í næsta gír og ég var ánægður með viðbrögðin í seinni hálfleik.“

„Við vorum ógeðslega flottir, gott tempó, mikil ákefð og mikill sigurvilji. Það var ég rosalega ánægður með. Að taka þrjú stig úr leik þar sem við erum að elta nær allan leikinn, ég er stoltur og ánægður með strákana fyrir það.“

Menn voru mikið í því að renna í grasinu í dag. Var það völlurinn eða voru menn einfaldlega ekki í nógu góðum skóm?

„Það er sitt lítið af hvoru. Beggi (vallarstjóri) vökvaði völlinn á hárréttum tíma fyrir leik. Hann vildi fá hraðan leik og við fengum bara flottan fótboltaleik fyrir vikið,“ sagði Óli Stefán brosandi að lokum.

Helgi: Dómarinn hleypir þeim inn í leikinn
Helgi Sigurðsson var ósáttur með Þórodd Hjaltalín dómara í kvöld.Vísir/Andri Marinó
„Dómarinn ákveður að hleypa þeim inn í leikinn og gefa þeim heldur ódýra vítaspyrnu. Ég er ekki vanur að væla yfir dómaranum en frá okkar sjónarhorni var þetta aldrei víti. En hann dæmdi það og það skildi á milli í dag, þeir skoruðu tvö og við eitt,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir grátlegt tap gegn Grindvíkingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Sigurmark Grindavíkur kom á 88.mínútu og settust heimamenn um leið í toppsæti deildarinnar.

„Þetta var alveg ömurlegt. Við vorum vel inni í leiknum og fengum bestu færin en það er segin saga í þessum fótbolta, ef þú nýtir ekki færin þá er alltaf hætta á að þú fáir mark á þig,“ bætti Helgi við en þrátt fyrir talsverða yfirburði Grindavíkur í seinni hálfleik fengu gestirnir góð færi sem ekki nýttust.

"Þeir voru meira með boltann en voru ekki að skapa neitt mikið. Við fengum bestu færin og þar af 2-3 algjör dauðafæri í seinni hálfleik sem við nýtum ekki. Svo fáum við hitt í bakið sem er hundfúlt því menn eru að leggja sig vel fram og að fá ekkert út úr leiknum er vont.“

Fylkismenn sitja í 10.sæti deildarinnar með 8 stig eftir sjö umferðir.

„Það er nóg framundan. Þetta er okkar fimmti útleikur og við höfum bara spilað tvo leiki heima. Við erum búnir að spila við mjög góð lið og þetta eru allt erfiðir leikir. Ef maður hefur ekki einbeitingu allan tímann lendir maður í vandræðum.“

„Ég er ekki óánægður með uppleggið og það hvernig menn gerðu hlutina. Það vantaði bara herslumuninn á þetta í dag,“ sagði Helgi Sigurðsson að lokum.

Björn Berg: Kominn með tvö núna og bara átján eftir
Grindvíkingar fagna markiVísir/Hanna
„Ég er rosalega sáttur. Við töluðum um 20 mörk síðast, það eru komin tvö núna og bara átján eftir,“ sagði Björn Berg Bryde eftir sigurinn gegn Fylki en hann skoraði fyrra mark Grindavíkur í kvöld úr vítaspyrnu. Björn Berg hafði sagt fyrr í sumar að hann ætlaði sér að slá markamet Andra Rúnars Bjarnasonar frá því í fyrra og skora tuttugu mörk.

„Við spiluðum þetta vel í seinni hálfleik eftir frekan dapran fyrri hálfleik. Við vorum alltaf líklegir. Við höfum gert það áður að skora í lokin og þegar við náum að snúa bökum saman þá erum við erfiðir að eiga við,“ bætti Björn Berg við.

Sító, framherji Grindavíkur, fékk afhent verðlaun fyrir leik fyrir að hafa skorað fallegasta markið í maí í Pepsi-deildinni og horfði Björn Berg hýrum augum á verðlaunin og sagðist ætla að skora.

„Ég held að markið mitt eigi ekki séns í markið hans. Það er fullt eftir og við sjáum hvort ég geti ekki tekið eina sleggju þegar líður á tímabilið,“ sagði Björn Berg hlæjandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira