Innlent

Hvorki Ár­nes­hreppur né Þjóð­skrá telja sitt verk­svið að kæra til­raun til kosninga­spjalla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Hvorki Árneshreppur né Þjóðskrá Íslands telja það á sínu verksviði að kæra umdeilda lögheimilisflutninga í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sem tilraun til kosningaspjalla. Fulltrúar þeirra sem strikaðir voru út af kjörskrá hafa hins vegar kært kosningarnar. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2. 

Átökin um Árneshrepp halda áfram þrátt fyrir heitstrengingar fulltrúa andstæðra fylkinga í síðustu viku um að nú skyldu allir verða vinir og standa saman. Andstæðingar Hvalárvirkjunar, undir forystu Ólafs Valssonar, sem hlutu engan mann kjörinn í hreppsnefndina, hafa nú kært úrslit kosninganna. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins snýst kæran um þær ákvarðanir Þjóðskrár og hreppsnefndar sem leiddu til þess að sextán manns voru strikaðir út af kjörskrá.

Ólafur Valsson, kaupmaður og dýralæknir í Norðurfirði, fékk flest atkvæði andstæðinga Hvalárvirkjunar í kosningunum í Árneshreppi en náði ekki kjöri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Málið komst fyrst í fréttirnar fyrir mánuði þegar lögmenn Árneshrepps fullyrtu í minnisblaði að lögheimilisflutningarnir bæru það með sér að vera málamyndaskráningar vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga. Lögmannsstofan benti jafnframt á alvarleika málsins; að kosningaspjöll, með því að afla sér eða öðrum ólöglega færis á að taka þátt í atkvæðagreiðslu, gætu varðað allt að tveggja ára fangelsi eða sektum. 

Við spurðum oddvita Árneshrepps, Evu Sigurbjörnsdóttur, hvort þessir lögheimilisflutningar hafi verið tilraun til þess að ná völdum með ólögmætum hætti: 

„Hvað heldur þú?“

-Ég spyr þig. 

„Já, ég held það hljóti að vera.“ 

-En þarf þá ekki að fylgja því eftir með lögreglurannsókn og ákæru? 

„Það er ekki mitt að skera úr um það. Það voru ekki við í sveitarstjórn sem settu þetta fólk út af kjörskrá hér. Það var Þjóðskrá í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands. Það er eina stofnunin, eini aðilinn, sem hefur leyfi til að gera slíkt. Og ég held að það hljóti að vera í höndunum á þeirri stofnun að ákveða hvað verði gert í framhaldinu,“ svarar Eva.

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Talsmaður Þjóðskrár, Ástríður Jóhannesdóttir, sagði hins vegar fyrir tveimur vikum á Stöð 2 að það væri ekki á þeirra sviði að vísa málinu til lögreglu. 

„Það er ekki okkar hlutverk að taka ákvörðun um það,“ sagði Ástríður. 

Samkvæmt lögum er það hlutverk ákæruvaldsins að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þær upplýsingar fengust frá ríkissaksóknara í dag að málefni Árneshrepps væru ekki á borði embættisins. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Búið að strika sextán út af kjörskrá í Árneshreppi

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti í gærkvöldi að taka út fjóra einstaklinga af kjörskrá en bæta einum einstaklingi inn. Þar með er hreppsnefndin búin að ógilda sextán lögheimilsflutninga en samþykkja tvo.

Aðför sem lýsir virðingarleysi og fádæma dómgreindarleysi

Formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga segir atburðina í Árneshreppi grófa aðför að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélags. Þetta sé sambærilegt því ef 40 þúsund íbúar á landsbyggðinni myndu skrá sig til málamynda í Reykjavík til að hafa áhrif á flugvöllinn í Vatnsmýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×