Íslenski boltinn

Helgi: Dómarinn hleypir þeim inn í leikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Helgi Sigðursson var ekki ánægður með Þórodd Hjaltalín dómara eftir tapið gegn Grindavík.
Helgi Sigðursson var ekki ánægður með Þórodd Hjaltalín dómara eftir tapið gegn Grindavík. Vísir/Andri Marinó
„Dómarinn ákveður að hleypa þeim inn í leikinn og gefa þeim heldur ódýra vítaspyrnu. Ég er ekki vanur að væla yfir dómaranum en frá okkar sjónarhorni var þetta aldrei víti. En hann dæmdi það og það skildi á milli í dag, þeir skoruðu tvö og við eitt,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir grátlegt tap gegn Grindvíkingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Sigurmark Grindavíkur kom á 88.mínútu og settust heimamenn um leið í toppsæti deildarinnar.

„Þetta var alveg ömurlegt. Við vorum vel inni í leiknum og fengum bestu færin en það er segin saga í þessum fótbolta, ef þú nýtir ekki færin þá er alltaf hætta á að þú fáir mark á þig,“ bætti Helgi við en þrátt fyrir talsverða yfirburði Grindavíkur í seinni hálfleik fengu gestirnir góð færi sem ekki nýttust.

"Þeir voru meira með boltann en voru ekki að skapa neitt mikið. Við fengum bestu færin og þar af 2-3 algjör dauðafæri í seinni hálfleik sem við nýtum ekki. Svo fáum við hitt í bakið sem er hundfúlt því menn eru að leggja sig vel fram og að fá ekkert út úr leiknum er vont.“

Fylkismenn sitja í 10.sæti deildarinnar með 8 stig eftir sjö umferðir.

„Það er nóg framundan. Þetta er okkar fimmti útleikur og við höfum bara spilað tvo leiki heima. Við erum búnir að spila við mjög góð lið og þetta eru allt erfiðir leikir. Ef maður hefur ekki einbeitingu allan tímann lendir maður í vandræðum.“

„Ég er ekki óánægður með uppleggið og það hvernig menn gerðu hlutina. Það vantaði bara herslumuninn á þetta í dag,“ sagði Helgi Sigurðsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×