Innlent

Tíu stærstu fá helming lækkunarinnar

Jóhann Óli Eiðsson og Jón Hákon Halldórsson skrifa
Forsætisráðherra segir að komið sé til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki.
Forsætisráðherra segir að komið sé til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Vísir
Varlega áætlað má gera ráð fyrir að stórar útgerðir, það er útgerðir sem greiða 30 milljónir eða meira í veiðileyfagjald, taki til sín að minnsta kosti 80 prósent af þeirri lækkun veiðileyfagjalds á næsta fiskveiðiári sem boðað frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis felur í sér. Þetta sýna útreikningar Fréttablaðsins. Stóru útgerðirnar eru á sjötta tug talsins.

Heildarlækkun veiðigjaldanna nemur um 2,6 milljörðum króna, verði lækkun veiðigjaldanna 24 prósent eins og frumvarpið gerir ráð fyrir á algengustu tegundirnar. Fágætari tegundir eiga það til að lækka meira og því gæti heildarlækkunin orðið enn meiri. Af þessum 2,6 milljörðum munu gjöld 10 stærstu útgerðanna lækka um rúmlega 1,3 milljarða með breytingunum. Þær munu, með öðrum orðum, taka til sín um helming lækkunarinnar.

Í umsögnum um frumvarpið hefur verið gagnrýnt að það hygli stórum fyrirtækjum. „Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar það sér mest til þeirra stærstu þó að reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun einfaldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra,“ segir í umsögn Bolla Héðinssonar hagfræðings.

„Það er verið að auka vægi sértækra afslátta gagnvart litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Það er ein kerfisbreytingin sem felst í málinu. Það er verið að koma sérstaklega til móts við þær. Ef kerfið væri óbreytt þá myndi það ekki skila sér,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um frumvarpið.

Katrín segist skilja gagnrýni stjórnarandstöðunnar á frumvarpið, enda liggi það alveg skýrt fyrir að það sé lagt fram seint.


Tengdar fréttir

Lækkun veiðigjalda þolir enga bið að sögn formanns atvinnuveganefndar

Formaður atvinnuveganefndar segir sjávarútvegsráðherra verða að svara fyrir það hvers vegna frumvarp um lækkun veiðigjalda hafi ekki verið lagt fram fyrr. Málið þoli aftur á móti enga bið þar sem minni útgerðir séu að sigla í þrot. Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að frumvarpið yrði tekið til umræðu á Alþingi í gær.

Kvótasalar fá helming umframhagnaðar

Hið opinbera hefur frá 2010 tekið um 20 prósent af umframhagnaði sjávarútvegsfyrirtækja í auðlindagjald. 80 prósent umframhagnaðarins hafa farið til núverandi útgerðarfyrirtækja og fyrrverandi eigenda aflaheimilda.

Eigið fé jókst um 50 milljarða

Eigið fé útgerða fór úr 251 milljarði í 299 milljarða milli janúar 2015 og 2016. Skiptar skoðanir um veiðigjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×