Innlent

Engri vél snúið frá Keflavíkurflugvelli sökum þoku

Birgir Olgeirsson skrifar
Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Vísir/Anton Brink.
Aðstæður á Keflavíkurflugvelli í nótt voru ekki með besta móti sökum þoku sem olli því að aðeins mátti ein vél lenda eða taka á loft í einu.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir vinnureglur hjá Keflavíkurflugvelli skýrar þegar skyggnið verður svo slæmt sökum þoku.

„Þá er bara ein hreyfing í einu, hvort sem það er flugtak eða lending. Þá þurfti hver og ein vél að koma inn og lenda og fara á sína endastöð. Þegar því var lokið mátti næsta vél koma inn og svo framvegis. Það þurftu nokkrar vélar að bíða þar til þeim var hleypt í röðina til að lenda. Þetta er bara staðan þegar skyggnið var eins og það var í morgun,“ segir Guðjón.

Flugstjóri farþegaþotu WOW Air, sem var á leið frá Barcelona til Keflavíkur, hætti við að lenda í Keflavík í nótt sökum þotu og lenti þess í stað á flugvelli í Shannon á Írlandi. Upplýsingafulltrúi WOW Air sagði í samtali við Vísi að það hefði verið ákvörðun flugstjórans að lenda ekki. 

Farþegaþota Icelandair, sem var á leið frá Denver til Keflavíkur, stoppaði í um klukkutíma á Iqaluit-flugvellinum í Norður Kanada til að taka eldsneyti áður en förinni var aftur heitið til Keflavíkur. Ástæðan fyrir því að millilent var í Kanada var sú að um langa flugferð er að ræða og sá flugstjórinn fyrir þó nokkra bið sökum þoku í Keflavík.

Guðjón Helgason segir að allar vélar sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli í nótt hefðu fengið leyfi til þess en þurftu að bíða í einhvern tíma sökum þoku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×