Innlent

Ró yfir viðræðum í Ísafjarðarbæ

Birgir Olgeirsson skrifar
Í-listinn missti meirihluta í kosningunum og eru Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn nú í meirihlutaviðræðum.
Í-listinn missti meirihluta í kosningunum og eru Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn nú í meirihlutaviðræðum. Vísir/Egill
Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ tóku því rólega yfir helgina en fulltrúar þessara flokka hafa átt í formlegum viðræðum um myndun meirihluta í bæjarstjórn sveitarfélagsins.

Marzellíus Sveinbjörnsson er oddviti Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ en hann segir helgina hafa verið nýtta til annarra verka.

Engar viðræður áttu sér því stað yfir helgina en Marzellíus segir flokkana hafa um fimmtán daga frá kosningum og fram að fyrsta bæjarstjórnarfundi til að mynda meirihluta.

Spurður hvað flokkarnir ræði helst segir Marzellíus samstarfið í heild sinni undir, bæði málefnasamningurinn og hvernig verður raðað í nefndir.

„Bara þetta hefðbundna sem allir flokkar ræða,“ segir Marzellíus.

Hann segir að verði af meirihlutasamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þá verður staða bæjarstjóra auglýst, líkt og Framsóknarmenn lofuðu fyrir kosningar.

Marzellíus segir Sjálfstæðismenn hafa fallist á þá kröfu áður en viðræðurnar hófust.

„Það er það eina sem var ákveðið þegar við gengum að borðinu,“ segir Marzellíus sem vonast til þess að skýrari mynd verði komin á viðræðurnar fyrir helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×