Erlent

Weinstein segist saklaus

Samúel Karl Ólason skrifar
Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. Vísir/AP
Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur lýst yfir sakleysi sínu fyrir rétti í New York, þar sem hann hefur verið ákærður fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot. Honum er gert að hafa nauðgað konu á hótelherbergi í borginni og þvingað aðra til munnmaka á skrifstofu sinni. Hann mun þurfa að greiða milljón dala í tryggingu til að fá að ganga laus á meðan réttarhöld standa yfir.

Weinstein var um skeið einn farsælasti kvikmyndaframleiðandi í Hollywood en á síðustu mánuðum hafa rúmlega 70 konur í kvikmyndaiðnaðinum stigið fram og sakað Weinstein um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Fjöldi leikkvenna hefur greint frá því að Weinstein hafi beitt áhrifum sínum í Hollywood og hótað því að koma í veg fyrir framgang þeirra í starfi myndu þær ekki beygja sig undir vilja Weinsteins.

Weinstein var ákærður í New York í síðustu viku en hann á einnig ákærur yfir höfði sér í Los Angeles, London og frá alríkisyfirvöldum Bandaríkjanna. Hann er 66 ára gamall og hefur að undanförnu dvalið á meðferðarstofnun í Arizona hvar hann sótti meðferð við kynlífsfíkn.

Benjamin Brafman, lögmaður Weinstein, sagði þetta vera byrjunina á vörn skjólstæðings síns og að miðað við sönnunargögnin sem þeir hefðu séð væri málið auðunnið. Brafman sagði að eins slæmur glæpur og nauðgun væri, væri jafn slæmt að vera sakaður um nauðgun að ósekju.

Réttarhöldin munu hefjast þann 20. september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×