Fótbolti

Sergio Ramos gerir grín að leikmönnum Liverpool: Salah gat alveg haldið áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atvikið á milli Sergio Ramos og Mohamed Salah.
Atvikið á milli Sergio Ramos og Mohamed Salah. Vísir/Getty
Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, var í viðtali við spænska blaðið AS í dag þar sem hann gerði hálfpart grín af vælinu í leikmönnum Liverpool og kennir Mohamed Salah sjálfum um meiðslin.

Sergio Ramos segir að ástæðan fyrir því hversu illa Mohamed Salah meiddist sé engum öðrum að kenna en Egyptanum sjálfum. Ástæðan fyrir því er að það var Salah sem byrjaði því að grípa í arm Ramos í baráttu þeirra um boltann.

Mohamed Salah gat ekki spilað áfram og fór grátandi af velli. Sergio Ramos heldur því nú fram að hann hefði auðveldlega getað haldið áfram.

„Hann hefði getað haldið áfram ef hann hefði fengið sprautu,“ sagði Ramos.





Hann segist síðan hafa verið í sambandi við Salah í gegnum skilaboð og það hafi verið allt í góðu á milli þeirra.

Nú er einnig komið í ljós að markvörðurinn Loris Karius fékk heilahristing eftir olnbogaskot frá spænska miðverðinum. Einhverjir halda því fram að skelfileg markmannsmistök Loris Karius í leiknum sé þessum heilahristingi að kenna.

„Það vantar bara að Roberto Firmino segi að hann hafi fengið kvef af því að svitadropi frá mér lenti á honum,“ sagði Ramos í háðstón.

„Andskotinn sjálfur hvað þetta Salah mál hefur fengið mikla athygli. Ég vildi ekki segja neitt af því að það er gert svo mikið úr öllu,“ sagði Ramos.

Það er hægt að finna viðtalið í AS með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×