Lífið

Stanslaust áreiti aðdáenda hrakti Stjörnustríðsleikkonu af Instagram

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kelly Marie Tran í hlutverki Rose Tico í kvikmyndinni The Last Jedi.
Kelly Marie Tran í hlutverki Rose Tico í kvikmyndinni The Last Jedi. Vísir/AFP
Bandaríska leikkonan Kelly Marie Tran, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem Rose Tico í Stjörnustríðsmyndinni The Last Jedi, hefur eytt öllu út af Instagram-reikningi sínum. Talið er að hún hafi sagt skilið við miðilinn vegna ítrekaðs áreitis og kynþáttafordóma í hennar garð af hálfu aðdáenda Stjörnustríðsmyndanna.

Tran, sem er af víetnömskum uppruna, fór með hlutverk vélvirkjans Rose Tico sem slóst í för með Finn, einni af aðalsöguhetjum nýju Stjörnustríðsmyndanna. Persónan virðist ekki hafa átt upp á pallborðið hjá einhverjum aðdáendanna en margir þeirra, yfirleitt karlar, hafa komið óánægju sinni til skila með því að rakka niður útlit Tran og þjóðerni hennar.

Engar færslur er nú að finna á Instagram-reikningi Tran, sem áður var fullur af myndum. Tran er sögð hafa þurft að þola áreiti frá aðdáendum Stjörnustríðsmyndanna svo mánuðum skipti.Skjáskot/Instagram
Bandaríska YouTube-stjarnan Paul Ramsey, sem gjarnan er kenndur við „hitt hægrið“ vestanhafs, var á meðal þeirra sem beindu spjótum sínum að Tran á sínum tíma. Hann gerði grín að holdafari hennar í Twitter-færslu sem birtist eftir að The Last Jedi kom út í fyrra.

Áreitið virðist nú hafa náð slíkum hæðum að Tran fann sig knúna til að eyða öllu út af Instagram-reikningi sínum. Tran hefur þó ekkert tjáð sig enn um málið en leikstjóri The Last Jedi, Rian Johnson, stökk henni til varnar á Twitter í gær.

Þá hafa óbreyttir netverjar margir tekið upp hanskann fyrir Tran og hafa margir hamrað á því hversu góð fyrirmynd hún sé fyrir Bandaríkjamenn af asískum uppruna, sérstaklega konur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Stjörnustríðsleikkona er flæmd burt af samfélagsmiðlum en Daisy Ridley, sem fer með aðalhlutverkið í nýju kvikmyndum seríunnar, lokaði Instagram-reikningi sínum um stund árið 2016. Talið er að hún hafi gripið til þess ráðs vegna áreitis frá aðdáendum myndanna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×