Erlent

Comey gagnrýndur fyrir óhlýðni

Samúel Karl Ólason skrifar
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI.
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI. Vísir/AP
Innra eftirlit Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, hafa óhlýðnast yfirmönnum sínum. Í skýrslu, sem enn hefur ekki verið gefin út, er Comey gagnrýndur sérstaklega fyrir meðhöndlun sína á rannsókn FBI varðandi tölvupósta Hillary Clinton, mótframbjóðanda Donald Trump. Þetta hefur ABC eftir heimildarmönnum sínum sem hafa séð niðurstöður skýrslunnar.



Búist er við því að skýrslan verði opinberuð á næstu dögum.

Meðal þess sem kemur þar fram að er að Comey er gagnrýndur fyrir að hunsa mótmæli gegn því að hann sendi bréf til þingsins skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016 og tilkynnti að rannsókn FBI á tölvupóstum Clinton hefði verið opnuð á nýjan leik. Minnst einn embættismaður innan Dómsmálaráðuneytisins sagði Comey að sú opinberun bryti gegn starfsreglum ráðuneytisins og alríkisreglum um að opinbera upplýsingar um yfirstandandi rannsókn.

Sjálf hefur Clinton sagt að umrætt bréf hefði valdið því að hún tapaði kosningunum.

Þegar Trump rak Comey í fyrra skrifaði Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, bréf til þingsins þar sem hann sagði honum hafa verið vikið úr starfi fyrir umrætt bréf. Það hefði ekki verið í hans verkahring að tilkynna rannsóknina.

Trump viðurkenndi þó í viðtali síðar að hann hefði rekið Comey vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu og í kjölfar þess var Robert Mueller skipaður í embætti sérstaks saksóknara.

Comey hefur sagt að hann hafi tekið þessa ákvörðun svo hann gæti reynt að verja Alríkislögregluna gegn frekari gagnrýni en þegar hafði beinst gegn stofnuninni.

 


Tengdar fréttir

Trump segir orðspor FBI í molum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vandar bandarísku alríkislögreglunni FBI ekki kveðjurnar á Twitter síðu sinni í dag. Hann segir orðspor FBI í molum.

Árásum íhaldsmanna á FBI fjölgar

Útlit er fyrir að Repúblikanar séu með markvissum hætti að reyna að grafa undan trúverðugleika FBI og Mueller. Í það minnsta meðal stuðningsmanna flokksins.

Trump ætlaði að reka Mueller

Bandaríkjaforsetinn Donald Trump var kominn á fremsta hlunn með að reka sérstaka rannsakandann Robert Mueller, sem kannar tengsl kosningaliðs forsetans við Rússa, í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×