Innlent

Páll sagður rúinn trausti í kjördæminu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Mikil reiði er innan flokksins vegna meintrar framgöngu Páls Magnússonar gegn eigin flokki í aðdraganda kosninga.
Mikil reiði er innan flokksins vegna meintrar framgöngu Páls Magnússonar gegn eigin flokki í aðdraganda kosninga. Vísir/vilhelm
„Það er engin launung á því að við Sjálfstæðismenn í Eyjum erum mjög ósátt við framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna,“ segir Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, um oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, Pál Magnússon. Jarl segir Pál launa illa þá vinnu sem hann sjálfur og margir Sjálfstæðismenn lögðu á sig fyrir Pál og flokkinn í aðdraganda síðustu þingkosninga.

Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, vann góðan sigur í kosningunum, fékk þrjá menn kjörna og myndaði nýjan meirihluta með Eyjalistanum en Sjálfstæðismenn töpuðu meirihluta sem þeir hafa haft undanfarin tólf ár og fengu einnig þrjá menn kjörna.

Vináttusamband er milli Páls og Írisar Róbertsdóttur, oddvita klofningsframboðsins og nýs bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Þau hafa verið samherjar í pólitík um árabil og hafa til dæmis lengi setið saman í stjórn ÍBV. Íris studdi Pál dyggilega í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir síðustu þingkosningar og þótt Páll hafi ekki stutt klofningsframboð Írisar opinberlega eru viðmælendur Fréttablaðsins í flokknum á einu máli um að hann stóð með Írisi og félögum hennar í baráttunni og veitti framboði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum engan stuðning.

Einn viðmælandi blaðsins bendir á hve mjótt hafi verið á munum milli flokksins og klofningsframboðsins og því hafi atkvæði Páls sjálfs og hans nánustu í raun gert útslagið og meirihluti flokksins fallið á atkvæðum þeirra.

Elliði Vignisson er líklegur helsti keppinautur Páls um forystu í Suðurkjördæmi.
Annar viðmælandi blaðsins telur einsýnt að Páll muni aldrei aftur sigra í prófkjöri fyrir flokkinn í kjördæminu. Þessi afstaða tilheyrir ekki eingöngu Eyjamönnum heldur hafi sveitarstjórnarmenn flokksins um allt kjördæmið snúið baki við Páli.

Samherjar Páls í Sjálfstæðisflokknum, þeir Janus Arn Guðmundsson og Þengill Björnsson, munu einnig hafa beitt sér óformlega fyrir klofningsframboðið. Þeir unnu báðir með Páli í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og Janus í framhaldinu sem kosningastjóri flokksins í kjördæminu. 

Nokkurs titrings gætir í Valhöll vegna málsins en Janus og Þengill sitja báðir í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og Janus er nýráðinn framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Til eru þeir í forystu flokksins sem vilja helst losna við þá Janus og Þengil úr flokknum enda þrífist þeir á innanflokksátökum og margir telja fráleitt að þeir geti setið í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn og um leið beitt sér gegn flokknum í kosningum. Hins vegar eru þeir sem vilja ekki þann óvinafögnuð að taka hart á þeim sem beita sér gegn flokknum.

Elliði Vignisson, fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Bjarna Benediktssonar á formannsstóli, hann hefur einnig íhugað að hella sér út í landsmálin og vitað er að hann lá undir feldi fyrir síðustu þingkosningar. Gæfi Elliði kost á sér í landsmálin má gera ráð fyrir að hann etji kappi við Pál sem er oddviti flokksins í kjördæminu og í því ljósi má halda því fram að Páll hafi hagsmuni af því að koma Elliða á kné áður en hann nær of langt. Árangurinn kann hins vegar að vera of dýru verði keyptur ef orðspor Páls sjálfs í kjördæminu fylgir með.

Fyrirsögn fréttar var breytt af ritstjórn Vísis í samræmi við innihald fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×