Lífið

Tónleikar og spjall á persónlegum nótum í Hofi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Lára Sóley og Hjalti hafa starfað mikið saman í tónlist og nú blanda þau sögum úr eigin lífi inn í tónleikadagskrána sem hefur yfirskriftina Hamskipti.
Lára Sóley og Hjalti hafa starfað mikið saman í tónlist og nú blanda þau sögum úr eigin lífi inn í tónleikadagskrána sem hefur yfirskriftina Hamskipti. Auðunn Níelsson
„Við hjónin höfum starfað mikið saman í tónlistinni en nú erum við með nýtt form því við blöndum saman tónum og tali,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir um dagskrána Hamskipti sem hún, eiginmaðurinn Hjalti Jónsson og Valmar Valjaots standa að undir yfirskriftinni Hamskipti.

Þau verða í Hofi á Akureyri í kvöld klukkan 20.30 en eiga að baki ferðalag með efnið um Norðurlandið endilangt, frá Þórshöfn í austri til Blönduóss í vestri. „Svo ætlum við að vera í Grímsey á sumarsólstöðum,“ upplýsir Lára Sóley glaðlega.

Lára Sóley er fiðluleikari og hefur verið konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Hjalti er menntaður í klassískum söng, spilar á gítar og er sálfræðingur og Valmar Valjaots er organisti Glerárkirkju, hann er frá Eistlandi en hefur verið búsettur á Íslandi í á þriðja áratug og er virkur í tónlistarlífinu fyrir norðan.

Hann spilar á píanó á þessum tónleikum. „Við spjöllum á persónulegum nótum um eigið líf inn á milli laga og Hjalti fléttar inn í það sálfræðilegum pælingum,“ lýsir Lára Sóley og heldur áfram: „Tónlistin er frá ólíkum tímabilum, þar koma Presley, Platters og Metallica við sögu og svo klassík – sérstök blanda en býsna fjölbreytt. Við renndum blint í sjóinn með þetta prógramm en höfum fengið góðar viðtökur svo það hefur gengið upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×