Skoðun

Nei, ekki ljósaperu!

Fjalar Sigurðarson skrifar
Hún er lífseig sú árátta að skreyta umræðu um nýsköpun með mynd af glóperu, gömlu góðu ljósaperunni. Margt gefur tilefni til að endurskoða þessa klisju.

Í fyrsta lagi þá þrengja klisjur að hugsun. Þegar seilst er eftir klisju sleppir fólk því að hugsa, situr fast í gömlu fari og missir af tækifæri til að fá nýjar og spennandi hugmyndir. Glóperan er aldargömul og er tákn um úrelta og orkufreka tækni á hraðri útleið.

En meginástæðan fyrir því að glópera hentar illa sem tákn fyrir nýsköpun er að nýsköpun þarf alls ekki að vera uppfinning. Nýnæmið er oft fólgið í því að nota þekkta tækni eða hugmyndir á nýjan hátt. Með því að vitna ítrekað í glóperu Edisons er nýsköpun jafnað við uppfinningu, og það enga smá uppfinningu. Mark nýsköpunar er þannig sett svo hátt að samlíkingin gæti dregið kjark úr þeim sem ætla sér ekki endilega að gjörbylta lífsháttum margra kynslóða. Snjallt hugvitsfólk þarf ekki að bera sig saman við Edison eða aðra uppfinningamenn. Hagnýtar og snjallar lausnir koma í öllum stærðum og gerðum. Fyrsta skrefið er að móta hugmyndina og kynna sér skrefin sem þarf að stíga og í hvaða röð þarf að stíga þau.

Heimsækið vefinn okkar

Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands www.nmi.is  er mikið af hentugu efni til að kynna sér og fara í gegnum þegar unnið er með nýsköpun og nýjar hugmyndir. Auk upplýsinga eru þar sniðmát fyrir hugmyndavinnu og reiknilíkön fyrir rekstrar- og viðskiptaáætlanir.

Fyrsta skref þitt sem frumkvöðull ætti að vera að heimsækja vefinn okkar www.nmi.is – og stíga fyrstu skrefin í að útfæra hugmyndina þína, hversu stór eða smá sem hún er. Útfærslan og nánari vinna er sú deigla sem mun skera úr um gildi hugmyndarinnar. Og hún þarf alls ekki að vera glópera.

Höfundur er markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×