Viðskipti erlent

Gluggalausar vélar framtíðin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gluggalausa farrýmið má finna í Boeing 777-300ER flugvélum Emirates.
Gluggalausa farrýmið má finna í Boeing 777-300ER flugvélum Emirates. Vísir/Getty
Flugfélagið Emirates hefur svipt hulunni af gluggalausu fyrsta farrými um borð í nýjustu vél félagsins. Í stað þess að geta horft út um gluggann varpa litlar myndavélar utan á vélinni  myndum á skjá þar sem glugginn væri alla jafna.

Talsmenn Emirates segja að ekkert sé því til fyrirstöðu að fjarlægja alla glugga úr nýjum vélum flugfélagsins. Það muni létta þær, minnka loftmótstöðu og þannig gera þær sparneytnari.

Forseti Emirates, Tim Clark, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að myndin sem birtist á gluggaskjánum sé mjög skýr - „betri en mannsaugað býður upp á,“ eins og hann orðar það.

Sem fyrr segir eru gluggalaus farrými nú þegar komin í notkun hjá Emirates. Þau má finna um borð í nýjum Boeing 777-300ER vélum félagsins.

Flugöryggissérfræðingar hafa sett spurningar við hina nýju tækni Emirates og benda á að áhafnarmeðlimir verði að geta séð út úr vélinni í neyðartilfellum. Það er til að mynda ástæðan fyrir því að farþegar eru beðnir um að draga frá öllum gluggum við flugtak og lendingu.

Flugöryggismálastofnun Evrópu telur þó að gluggaskjáir Emirates uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hefðbundinna glugga. Þó sé ýmsum spurningum ósvarað. Munu þeir ýta undir innilokunarkennd og óþægindi farþega á lengri flugferðum? Mun myndin flökta undir álagi eða jafnvel frjósa? Það muni aðeins framtíðin geta leitt í ljós.

Hér að neðan má sjá spjall BBC við fyrrnefndan forseta Emirates, Tim Clark.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×