Innlent

Ljúfasti hestur í heimi með nýtt heimsmet

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þórarinn Eymundsson og nýi
heimsmeistarinn, Þráinn frá Flagbjarnarholti. Þráinn er
brúnskjóttur.
Þórarinn Eymundsson og nýi heimsmeistarinn, Þráinn frá Flagbjarnarholti. Þráinn er brúnskjóttur. Jaap Groven
Stóðhesturinn Þráinn, sex vetra frá Flagbjarnarholti í Holta og Landsveit gerið það heldur betur gott í gærkvöldi þegar hann setti heimsmet í kynbótadómi í Hólum í Hjaltadal því hann fékk 9,11 í meðaleinkunn fyrir hæfileika og 8,95 í aðaleinkunn.

Bróðir hans, Þórálfur frá Prestbæ, átti fyrra metið sem var sett í fyrra. Eigendur Þráins eru Hollendingar eða þau Yvonne Groven og Jaap Groven. Þórarinn Eymundsson frumtamdi Þráinn og hefur séð um þjálfun hans frá því að hann var fjögurra vetra.

„Þetta er ljúfasti hestur í heimi og langbesti hestur sem ég hef þjálfað og riðið, hann gerir alltaf allt sem maður biður hann um, ég hef aldrei áður kynnst eins mögnuðum hesti“, segir Þórarinn.

Þráinn fékk m.a. 9.0 fyrir tölt, brokk, skeið, stökk, fegurð í reið og hægt tölt. Þá fékk hann 9,5 fyrir fet og vilja og geðslag, auk þess fékk hann 8,5 fyrir hægt stökk. Þá má geta þess að Þráinn fékk 9,5 fyrir samræmi.

„Við Þráinn verðum saman á Landsmóti hestamanna í Reykjavík í næsta mánuði í kynbótasýningu. Eftir það sleppi ég honum í merar Í Holtsmúla í Landsveit hjá Svanhildi Hall og Magnúsi Lárussyni þar sem hann fær að njóta lífsins í einhverjar vikur“, bætir Þórarinn við.

Þráinn er undan Álfi frá Selfossi og Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×