Skoðun

Öryggismál og fjölbýlishús

Daníel Árnason skrifar
Hvort sem við búum í þéttbýlu eða strjálbýlu samfélagi er öryggi fjölskyldunnar og heimilisins í forgangi en algengustu ógnanirnar þar eru einkum tvær: Brunahætta og innbrot eða umferð óboðinna gesta.

Nýlegir alvarlegir eldsvoðar, bæði í stigahúsum fjölbýlishúsa og í atvinnuhúsnæði, sýna okkur að þrátt fyrir opinberar kröfur og reglugerðir þurfa eigendur sjálfir að vera á varðbergi gagnvart aðsteðjandi ógnunum því reglugerðir sjá ekki allt fyrir varðandi einstakar fasteignir. Þar hvílir ábyrgðin fyrst og síðast hjá eigendunum sjálfum.

Eldvarnir - forvarnir

Þau úrræði sem eigendur hafa til að minnka líkur á eldsvoða eða tjóni af þeim völdum eru t.d. samstillt átak við uppsetningu slökkvitækja og –búnaðar, uppsetning reykskynjara og samtenging þeirra, uppsetning og vöktun á brunaöryggiskerfum og fleira.

Ef þú býrð í fjölbýlishúsi á íbúðin þín að vera sjálfstætt brunahólf og vert að kanna hvort frágangur á veggjum, lofti, gólfi og hurðum að sameign sé ekki örugglega með þeim hætti að eldur geti ekki breiðst úr á milli íbúða. Í eldri húsum þarf að huga sérlega vel að öryggismálum, enda óvíst að byggingarreglugerðir sem þá giltu uppfylli allar þær öryggiskröfur sem gerðar eru í dag. Þar er t.d. rétt að huga að úrbótum á brunahólfum, t.d. með endurnýjun millihurða og brunaþéttingum samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Þá þarf sérstaklega að huga að brunavörnum í sorpgeymslum innandyra, geymslum og geymslugöngum. Einnig þarf að árétta og fylgja eftir reglum um hvað má geyma í sameign og í eldri húsum getur þurft að endurnýja rafmagnstöflur og jafnvel lagnir.

Æskilegt væri að framkvæma bruna- og rýmingaræfingar í fjölbýlishúsum, ásamt því að prófa viðvörunar- og eldvarnarbúnað. Reynslan sýnir enn fremur að huga þarf sérstaklega að öryggismálum í fjölbýlishúsum fyrir eldri borgara, enda fylgir aukin slysahætta óneitanlega hækkandi aldri.

Aðgangsstýring og eftirlit

Með aukinni skipulagðri glæpastarfsemi og tíðari innbrotum hafa húseigendur í vaxandi mæli tekið upp nútímalegri og tæknilegri aðgangsstýringar að eignum sínum til að hafa betra yfirlit yfir hverjir hafa að þeim aðgang. Þannig eru t.d. nýrri fjölbýlishús gjarnan með bílakjallara sem aukið hefur til muna þörfina fyrir góða aðgangsstýringu.

Eftirlitsmyndavélum og tilheyandi tækni hefur fleygt mikið fram á síðustu misserum og hefur uppsetning þeirra fælingaráhrif á gagnvart óæskilegri umgengni og þjófnaði og myndefni úr þeim getur hjálpað til við að rekja slóð ef um gripdeildir eða skemmdarverk hefur verið að ræða. Hafa eigendur fjölbýlishúsa sett upp slíkar eftirlitsmyndavélar en rétt er að minna á ákvæði persónuverndarlaga, ef setja á slíkan búnað upp, sem og reglur um það hverjir megi hafa aðgang að slíku myndefni.

Meiri áhersla á forvarnir í nýrri fasteignum

Erfitt er að mæla árangur af auknum ráðstöfunum í öryggismálum en ef marka má verð brunatrygginga fasteigna hefur kostnaður vegna tjóna af völdum eldsvoða farið ört vaxandi undanfarin ár. Þá sjáum við að kostnaður við öryggis- og aðgangsmál í fjölbýlishúsum, sem eru í þjónustu hjá okkur, hefur aukist um 48% að meðaltali á hverja íbúð. Þá aukningu má að einhverju leyti rekja til nýrri fasteigna en þar virðast eigendur leggja meiri áherslu á forvarnir.

Með stærri og flóknari fjöleignarhúsum, hækkandi aldri þjóðarinnar og aukinni kaupgetu er líka full þörf á að stjórnvöld séu í takt við tímann og auki kröfur um eldvarnir bygginga. Því hvetjum við bæði eigendur fasteigna og ekki síður stjórnvöld til að sýna frumkvæði og efla bæði forvarnir og eftirlit. Slysin gera ekki boð á undan sér!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×