Íslenski boltinn

Jonathan um atvikið gegn KR: "Hélt þetta gæti orðið minn síðasti fótboltaleikur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jonathan Hendrickx er lykilmaður í liði Breiðabliks en það fór um marga þegar hann hneig niður í leik gegn KR í Mjólkurbikar karla á miðvikudag í síðustu viku.

Í fyrstu var óttast að um hjartavandamál væri að ræða og að hann hefði jafnvel fengið hjartaáfall. En í mun betur fór en á horfðist.

Í ljós kom að hann fékk slæm ofnæmisviðbrögð við verkja- og bólgueyðandi lyfjum sem hann fékk eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í síðasta leik á undan.

Hann lýsir því að hann hafi erfiðað í leiknum. Fundið fyrir öndunarerfiðleikum og svima. En hann hélt áfram að spila en undir lok leiks fann hann fyrir miklum verk.

„Ég fann mikið til í brjóstinu og datt út. Það tók mig nokkrar mínútur að koma til baka og fatta hvað gerðist. Þetta var mjög ógnvekjandi,” sagði Jonathan í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég hélt að þetta gæti orðið minn síðasti fótboltaleikur eða mögulega eitthvað verra. Ef þetta er hjartaáfall þá veistu aldrei hvað gerist og þúg etur mögulega dáið.”

„Góðu fréttirnar eru þær að það er ekkert að hjartanu mínu. Það er engin flækja á hjartanu og ég get spilað aftur en auðvitað var þetta óhugnalegt. Ég held að allir á vellinum hafi óttast líka en að endingu lítur þetta vel út.”

Jonathan snýr aftur til Íslands á morgun og hefur þá æfingar að nýju með Breiðabliki. Ólíklegt er að hann verði með þegar Blikar mæta Grindvíkingum á laugardag, en hann stefnir á að ná leiknum gegn Fylki á miðvikudag í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×