Innlent

Haustlegt veður um helgina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það gæti rignt og blásið örlítið á landsmenn um helgina.
Það gæti rignt og blásið örlítið á landsmenn um helgina. VÍSIR/GVA

Þó að áfram verði hlýtt á Norðausturlandi mega aðrir landshlutar búast við rigningu og að vindur aukist um helgina ef marka má spákort Veðurstofunnar.

Þau gera þannig ráð fyrir fremur hægri suðlægri átt í dag, að það verði skýjað og sums staðar lítilsháttar súld suðvestan- og vestanvert en bjart að mestu á Norðurlandi.

Þá verði jafnframt víða þokuloft austantil á landinu en að það birti til þegar líður á morguninn. Þó kunn áfram að vera þokubakkar við sjóinn. Hitinn verði 8 til 20 stig að deginum og hlýjast í innsveitum norðaustanlands.

Spákortin gera svo ráð fyrir heldur ákveðnari vindi í nótt og á morgun sem fyrr segir. Honum mun fylgja rigning með köflum um landið vestanvert og þá mun jafnframt þykkna upp um landið austanvert.

Hins vegar verður áfram hlýtt í veðri norðan- og austanlands, en svalara í öðrum landshlutum.

Dálítil lægð fer svo norðaustur yfir land á sunnudag og mánudag og má þá búast við vætu í flestum landshlutum. Hlýja loftið sem hefur verið yfir landinu þokast austur á bóginn og kólnar heldur í veðri. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Sunnan 5-10 og rigning eða súld um landið vestanvert, en þurrt að mestu suðaustantil og hiti 8 til 14 stig. Skýjað með köflum um landið norðaustanvert og hiti að 20 stigum.

Á sunnudag:

Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt og dálítil væta sunnan- og vestantil, en skýjað og víða síðdegisskúrir um landið norðaustanvert. Kólnar lítið eitt.

Á mánudag og þriðjudag:
Breytileg átt 3-8. Skýjað og skúrir á stöku stað og hiti 6 til 13 stig, en yfirleitt þurrt sunnantil og heldur hlýrra.

Á miðvikudag:
Austlæg átt, skýjað að mestu og stöku skúrir. Hiti 8 til 15 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Dálítil væta austantil á landinu, en skýjað með köflum og úrkomulítið vestantil. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.