Fótbolti

Ari Freyr: Heimir veit hvað ég get

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ari Freyr er orðinn spenntur fyrir því að fara til Rússlands.
Ari Freyr er orðinn spenntur fyrir því að fara til Rússlands. vísir/getty
Ari Freyr Skúlason fékk tækifæri til þess að minna á sig í landsleiknum gegn Gana í gær er hann byrjaði í vinstri bakvarðarstöðunni.

Ari Freyr var fastamaður í liði Íslands um árabil en hefur setið á bekknum síðustu misserin þar sem Hörður Björgvin Magnússon hefur komið inn í liðið af miklum krafti.

„Ég er nokkuð sáttur við minn leik. Það koma alltaf upp stöður þar sem maður getur gert betur en mér fannst ég skila boltanum vel frá mér og sýna talanda og annað. Í svona leik var því miður lítið hægt að fara fram á við í síðari hálfleik. Það var samt gott fyrir mig að fá leik á móti svona leikmönnum,“ sagði Ari Freyr nokkuð brattur.

„Heimir veit hvað ég get enda hef ég spilað yfir 50 landsleiki. Svo er það bara undir honum komið hvernig hann velur. Eina sem hægt er að gera er að nýta sínar mínútur vel.“

Bakvörðurinn var ánægður með fyrri hálfleikinn en eðlilega ekki eins sáttur með þann síðari.

„Þetta var flottur fyrri hálfleikur en þeir gera breytingar í síðari hálfleik. Setja þrjá menn á miðjuna og við vorum ekki alveg að höndla það. Þetta voru nánast eins og svart og hvítt þessar hálfleikar í kvöld,“ sagði Ari Freyr frekar ósáttur við síðari hálfleikinn.

„Þeir minnka muninn með skítamarki og þá eflast þeir um leið. Við erum ekki vanir að gefa svona mörk. Þeir keyrðu svo á okkur á köntunum og voru bara helvíti sprækir. Það er hægt að taka margt jákvætt úr þessu og fyrst og fremst að allir eru heilir. Nú getum við ekki beðið eftir að koma til Rússlands.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×