Umfjöllun: Litháen - Ísland 28-27 | Þungt tap í Litháen

Benedikt Grétarsson skrifar
Aron Pálmarsson verður í lykilhlutverki í dag.
Aron Pálmarsson verður í lykilhlutverki í dag. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði 28-27 gegn Litháen í undankeppni heimsmeistaramótsins 2019. Eftir ágætan fyrri hálfleik hrundi leikur Íslands í þeim seinni og eins marks tap varð staðreynd.

Ísland er engu að síður í ágætri stöðu að komast á heimsmeistaramótið sem haldið verður í Þýskalandi og Danmörku í janúar á næsta ári.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði sjö mörk en besti maður liðsins var markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson sem varði 20 skot, þar af tvö vítaskot.

Litháar hafa verið að bæta sig mikið á handboltavellinum og hafa náð góðum úrslitum á heimavelli undanfarið. Íslenska liðið er sterkara á pappír en menn þurftu að mæta 100% tilbúnir á þessum erfiða útivelli.

Björgvin Páll Gústavsson byrjaði af krafti í markinu og fyrir framan Björgvin stóð íslenska vörnin með ágætum. Strákarnir okkar náðu frumkvæðinu og virtust hafa flest ráð Litháa á hreinu.

Þá fékk Ólafur Gústafsson brottvísun og svo auka brottvísun fyrir mótmæli og heimamenn gengu á lagið. Litháar komust í fyrsta skipti yfir í stöðunni 7-6 en þá lifnaði aftur yfir Íslandi sem vann lokakafla fyrri hálfleiks með sjö mörkum gegn þremur. Staðan var því 13-10 íslandi í vil að loknum 30 mínútna leik.

Seinni hálfleikur byrjaði prýðilega og Ísland komst í 14-10. Þá fór hins vegar allt í vaskinn, bæði í vörn og sókn og heimamenn skoruðu sjö mörk gegn tveimur á stuttum tíma. Litháen komst svo í 18-16 og útlitið alls ekki gott.

Aftur komust Íslendingar yfir og maður hafði alltaf á tilfinningunni að strákarnir myndu klára þetta verkefni. Heimamenn voru hins vegar ekki á sama máli.

Vörnin gjörsamlega hrundi til grunna í seinni hálfleik og það verður að segjast alveg eins og er að það er ekki boðlegt að fá á sig 18 mörk gegn þessu Litháen, með fullri virðingu fyrir þeim.

Litháar héldu frumkvæðinu allt til leiksloka en okkar menn fengu urmul færa til að komast aftur inn í dæmið og klára leikinn. Þessi færi fóru hins vegar forgörðum og því fór sem fór. Litháen vann eins marks sigur en ég hef trú á því að okkar menn vinni öruggan sigur á miðvikudaginn og komist á HM.

Afhverju vann Litháen leikinn?

Varnarleikur Íslands var mjög dapur í seinni hálfleik og í raun var það Björgvin Páll sem bjargaði því sem bjargað varð með sinni frammistöðu. Nýting dauðafæra og tæknifeilar voru líka að fara illa með íslenska liðið. Litháar eru sterkir maður gegn manni og höfðu meiri styrk og fótahraða en íslensku varnarmennirnir.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll var mjög góður og eiginlega langbestur í íslenska liðinu. Arnór Þór var seigur að venju og mjög öruggur á vítalínunni. Aron Pálmarsson átti spretti en verður að fá meiri hjálp þegar sóknarleikurinn verður eins stirður og raun bar vitni.

Hvað gekk illa?

Vörnin í seinni hálfleik var slök og áðurnefnd nýting dauðafæra. Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson átti sennilega einn slakasta leik sinn á landsliðsferlinum og það var eiginlega sturlað að sjá nýtinguna hjá þessum frábæra leikmanni.

Hvað gerist næst?

Seinni leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni miðvikudagskvöldið 13. Júní. Fyllum höllina og skilum strákunum á heimsmeistarmót sem verður algjörlega frábært í alla staði. HM í Þýskalandi/Danmörku, er hægt að biðja um meira?

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira