Fótbolti

6 dagar í HM: Skoraði sjálfsmark og var myrtur er hann snéri heim

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Escobar í leiknum örlagaríka.
Escobar í leiknum örlagaríka. vísir/getty
Saga Kólumbíumannsins Andres Escobar er ein sú sorglegasta sem tengist HM.

Escobar varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leik gegn Bandaríkjunum á HM 1994. Kólumbía tapaði leiknum, 2-1, og komst ekki upp úr riðlinum.

Upphaflega stóð til að Escobar myndi heimsækja ættingja í Las Vegas eftir mótið en hann hætti við þá áætlun. Þess í stað snéri hann aftur heim til Kólumbíu. Það reyndist ekki vera góð ákvörðun.

Aðeins fimm dögum eftir að Kólumbía féll úr leik á HM var búið að myrða Escobar í Medellin. Sömu borg og Pablo Escobar réði ríkjum í.

Andres hringdi í nokkra vini sína til þess að fara út á lífið. Klukkan þrjú um nóttina var hann síðan einn á bílastæði fyrir utan næturklúbb. Þá komu að honum þrír menn og byrjuðu að rífast við hann. Tveir þeirra tóku upp skammbyssur.

Escobar er hér niðurbrotinn eftir sjálfsmarkið.vísir/getty
Þetta rifrildi endaði með því að þeir skutu Escobar sex sinnum. Það var sagt í fréttum að þeir hefðu öskrað „mark“ í hvert skipti sem þeir skutu hann. Sjúkrabíll kom skömmu síðar á svæðið en Escobar lést 45 mínútum eftir að hann var kominn upp á sjúkrahús.

Morðið var sagt tengjast sjálfsmarkinu beint en landsliðsþjálfari Kólumbíu á þessum tíma vildi kenna ástandinu í landinu almennt um morðið.

Það var þjóðarsorg í Kólumbíu eftir þennan hörmulega atburð. 120 þúsund manns sóttu útför Escobar og mikið er lagt upp úr því að halda minningu hans á lofti. Árið 2002 var reist stytta af honum í Medellin.

Humberto Castro Munoz var lífvörður hjá fíkniefnabarónum borgarinnar og hann viðurkenndi að hafa myrt Escobar. Hann vann hjá kókaínbarón sem tapaði miklum peningum í veðmáli þar sem Kólumbía tapaði gegn Bandaríkjunum.

Hann var dæmdur í 43 ára fangelsi sem síðar var stytt niður í 26 ár. Honum var sleppt árið 2005 eftir að hafa setið í steininum í tæp ellefu ár. Hann gaf aldrei upp hverjir vitorðsmenn hans voru og tók einn á sig skellinn fyrir morðið.


Tengdar fréttir

13 dagar í HM: Þegar Norðmenn unnu Brasilíumenn á HM

Ísland mætir Noregi á Laugardalsvellinum annað kvöld. Íslenska karlalandsliðið er á leið á HM í Rússlandi en norsku landsliðsmennirnir þurfa að sætta sig við það að horfa HM heima í sófanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×