Erlent

Ætla að loka moskum og reka bænapresta úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis. Vísir/AP
Yfirvöld Austurríkis ætla að loka sjö moskum í ríkinu og reka bænapresta, sem sagðir eru vera fjármagnaðir erlendis frá, úr landi. Stjórnvöld í Austurríki gruna forsvarsmenn moskanna um tengsl við hreyfingar þjóðernissinna í Tyrklandi. 60 af 260 bænaprestum Austurríkis eru til rannsóknar, samkvæmt yfirvöldum þar, og eru 40 þeirra sagðir tilheyra hreyfingunni ATIB, sem tengist yfirvöldum Tyrklands.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði pólitíska íslamstrú, samhliða samfélög og öfgavæðing ekki eiga heima í Austurríki. Innanríkisráðherra landsins segir að mögulega muni allt að 150 manns missa dvalarleyfi sín í Austurríki.



Talsmaður Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, segir aðgerðir yfirvalda Austurríkis byggja á hatri gagnvart íslamstrúnni, rasisma og kynþáttamisrétti.



Mikil spenna hefur myndast á milli Austurríkis og Tyrklands á undanförnum mánuðum. Kurz, sem myndaði íhaldssama ríkisstjórn í Austurríki í fyrra, hefur kallað eftir því að Evrópusambandið felli niður aðildarumsókn Tyrklands og hefur það reitt ríkisstjórn Erdogan til reiði.

Aðgerðir yfirvalda Austurríkis byggja að miklu leyti á myndum sem birtust af börnum í búningum tyrkneska hersins þar sem þau voru að leika orrustuna um Gallipoli í mosku í Austurríki. Börnin þóttust vera dáin og voru umvafin tyrkneska fánanum.



Umrædd moska er sögð vara rekin af þjóðernissinnahreyfingunni Grey Wolves í Tyrklandi. Sex af moskunum sjö eru reknar af samtökunum Arab Religious Community og ætla yfirvöld Austurríkis að leysa samtökin upp.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×