Viðskipti innlent

Stór eigandi Heimavalla seldi við skráningu

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Kvika hefur haft milligöngu um sölu á stórum hluta bréfa Heimavalla.
Kvika hefur haft milligöngu um sölu á stórum hluta bréfa Heimavalla.
Stór hluthafi í leigufélaginu Heimavellir, sem skráð var á hlutabréfamarkað á fimmtudag, hefur selt í félaginu með aðstoð fjárfestingarbankans Kviku, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sú sala var lóð á vogarskálarnar þegar hlutabréfin lækkuðu um 10 prósent á fyrstu tveimur dögunum sem Heimavellir var skráð markað. Á mánudaginn hækkuðu bréfin um 7,5 prósent en lækkuðu um 2,3 prósent í gær. Frá útboðinu hafa hlutabréfin lækkað um 5 prósent miðað við vegið meðaltal útboðsgengis.

Fyrstu þrjá dagana sem leigufélagið var skráð á hlutabréfamarkað hafði Kvika milligöngu um 75-86 prósent viðskiptanna mælt í veltu, samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Megnið af sölunni má rekja til fyrrnefnds hluthafa. Kvika á hlutabréf í Heimavöllum sem metin eru á innan við hundrað milljónir króna að markaðsvirði. Þau bréf hafa ekki verið seld. Heimildir herma að bankinn hafi hvorki skortselt Heimavelli né tali fyrir því við viðskiptavini. Veltan með bréfin var samanlagt um 600 milljónir fyrstu þrjá dagana. Sérfræðingar á markaði telja að rót vandans sé að kauphliðin sé veik um þessar mundir vegna þess að lífeyrissjóðir haldi að sér höndum þegar kemur að Heimavöllum. Það er meðal annars rakið til óvæginnar umræðu verklýðsforkólfa um leigufélög. Lífeyrissjóðir fjárfesta eru ekki í félaginu meðal annars til að forðast orðsporsáhættu.

Kvika átti upphaflega að leiða söluferli á hlutabréfum Heimavalla samhliða skráningu á hlutabréfamarkað en fallið var frá því og Landsbankinn ráðinn í staðinn. Samkvæmt heimildum blaðsins má rekja þá ákvörðun einkum til þess að Kvika taldi að gengið sem eigendur Heimavalla fóru fram á væri of hátt.

Stjórnendur Heimavalla stefna að því að endurfjármagna lán með því að gefa út skuldabréf á markaði í haust, samkvæmt öðrum heimildum Markaðarins. Vegið meðaltal vaxta verðtryggðra lána félagsins er 4,4 prósent en samkvæmt fjárfestakynningu Heimavalla hafa fasteignafélög aflað lánsfjár á skuldabréfamarkaði á kjörunum 3,5-3,7 prósent verðtryggt. 




Tengdar fréttir

Enn lækka bréf í Heimavöllum

Hlutabréf í Heimavöllum féllu um 3,2 prósent í verði í tæplega 200 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í gær, á öðrum viðskiptadegi bréfanna.

Bréfin lækkuðu um 11 prósent frá útboðsgengi

Gengi hlutabréfa í Heimavöllum var 1,24 krónur á hlut í lok fyrsta viðskiptadags með bréfin í Kauphöll Íslands í gær og er það tæplega 11 prósenta lækkun frá meðalgengi í hlutafjárútboðinu fyrr í mánuðinum sem var 1,39 krónur á hlut.

Telur vaxtalækkun geta lækkað leigu

Forstjóri Heimavalla segir umræðu um hátt leiguverð ekki hafa verið félaginu til góðs. Helmings lækkun vaxta gæti lækkað leiguverð um 20 prósent. Viðskipti með bréf félagsins í Kauphöll Íslands hefjast í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×