Viðskipti innlent

Vilja kaupa um 5 prósenta hlut í Arion

Hörður Ægisson skrifar
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni Vísir/pjetur
Tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, sem hafa verið umsvifamiklir í fjárfestingum í skráðum félögum í Kauphöllinni síðustu misseri, hafa skuldbundið sig til að kaupa umtalsverðan eignarhlut í Arion banka í boðuðu hlutafjárútboði bankans í júní.

Fjárfestingarsjóðirnir munu kaupa á bilinu 10 til 20 prósent af þeim bréfum sem verða samtals seld í útboðinu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Áætlað er að selja að lágmarki fjórðungshlut, mögulega meira, og eignarhlutur sjóðanna í Arion banka eftir útboðið gæti því samanlagt verið í kringum 3 til 5 prósent.

Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um nöfn sjóðanna en um er að ræða fjárfestingarsjóði sem eru í hópi stærstu hluthafa í fyrirtækjum sem eru skráð í Kauphöllinni. Þeir sjóðir eru á vegum Eaton Vance, Miton Group, Lansdowne Partners og Wellington. Verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir, sem er á meðal söluráðgjafa Kaupþings í tengslum við hlutafjárútboð bankans, hefur milligöngu um viðskiptin. Gengið var frá samkomulagi við sjóðina í gær, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, en þeir taka þátt í útboðinu sem hornsteinsfjárfestar. Það þýðir að þeir skuldbinda sig fyrirfram til að kaupa tiltekinn hlut í bankanum á sama verði og aðrir fjárfestar í útboðinu, en semja ekki um sérstakt verð, og þá oft og tíðum lægra, líkt og kjölfestufjárfestar að undangengnu forvali í lokuðu útboði.

Upplýst verður um þátttöku sjóðanna sem hornsteinsfjárfesta í skráningarlýsingu sem birtist í tengslum við útboðið síðar í vikunni, líklega eftir lokun markaða í dag, fimmtudag. Sem fyrr segir liggur ekki endanlega fyrir hversu stóran hlut sjóðirnir kaupa, það ræðst af eftirspurn og gengi í útboðinu, en ef niðurstaðan verður samanlagt um 5 prósenta hlutur á genginu 0,7 miðað við núverandi eigið fé Arion banka, svo dæmi sé tekið, þá mun söluandvirðið nema um sjö milljörðum króna.

Kaupþing, sem fer með 55,6 prósent í Arion, hyggst losa um stóran hlut í útboðinu og þá mun Attestor Capital, sem á 12,4 prósent, mögulega selja allt að 2 prósenta hlut. 


Tengdar fréttir

Aðstoða Arion í hlutafjárútboði

Fossar markaðir, Íslandsbanki og Landsbankinn verða í hópi aðstoðarsöluráðgjafa í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Arion banka sem áætlað er að fari fram í næsta mánuði.

Ríkið fellur að hluta frá forkaupsrétti að Arion

Ríkið fellur tímabundið frá forkaupsrétti sínum að ákveðnum hluta Kaupþings í Arion við hlutafjárútboð. Einnig til skoðunar að Kaupþing ábyrgist greiðslu til ríkisins miðað við lágsmarksgengið 0,8. Útboð og skráning bankans í júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×