Skoðun

Hræsnin

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ein helsta gagnrýnin sem beinst hefur að borgarlínunni, nýju almenningssamgöngukerfi sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa komið sér saman um að byggja upp, er sú að hún muni koma til með að kosta allt of mikið. Þannig hafa andstæðingar línunnar þrástagast á því hvað hún feli í sér stórfellt bruðl á almannafé sem muni aðeins nýtast örfáum og reynast mörgum þungur baggi.

Gagnrýni á opinber gjöld er góðra gjalda verð. Raunar mættu fleira temja sér gagnrýna hugsun og auka aðhaldið með eyðslu stjórnmálamanna. Það merkilega er hins vegar að það eru gjarnan þeir sömu og sjá eftir hverri krónu sem varið er til þess að efla almenningssamgöngur sem sjá ekkert athugavert við að hið opinbera byggi mislæg gatnamót eða önnur ferlíki fyrir tugi milljarða króna.

Miðað við óbreytt ástand og enga borgarlínu þarf að verja allt að 350 milljörðum í stofnvegakerfi, götur, ræsi og ný bílastæði á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040. Til samanburðar er gert ráð fyrir að heildarkostnaður borgarlínu verði í mesta lagi 70 milljarðar. Borgarlínan mun því ekki aðeins draga úr umferðarteppum og stytta þannig ferðatíma fólks heldur jafnframt minnka stórlega fjárfestingaþörf í vegakerfinu.

Það er ekkert að því að vilja spara í opinberum rekstri. Í stað þess að fjárfesta í almenningssamgöngum mætti vissulega lækka skatta eða greiða niður skuldir. Það er afstaða sem hægt er að skilja, enda er brýn þörf á hvoru tveggja. Hræsnin felst hins vegar í því að sjá ofsjónum yfir peningum sem fara í almenningssamgöngur en heimta á sama tíma að margfalt hærri fjárhæðum verði eytt í að byggja risastór umferðarmannvirki.




Skoðun

Sjá meira


×