Körfubolti

Reykti kannabis fyrir leiki í NBA og varð meistari í fyrra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matt Barnes reykti fyrir alla leiki í úrslitaeinvíginu í fyrra.
Matt Barnes reykti fyrir alla leiki í úrslitaeinvíginu í fyrra. vísir/getty
Körfuboltamaðurinn fyrrverandi Matt Barnes, sem lagði skóna á hilluna eftir að verða NBA-meistari með Golden State Warriors í fyrra, reykti kannabis fyrir marga leiki í deildinni, meðal annars fyrir leikina í úrslitaeinvíginu á móti Cleveland Cavaliers.

„Ég reykti sex klukkutímum fyrir leik. Við skutum aðeins á körfuna um morguninn og eftir það fór ég heim, reykti eina jónu, lagði mig, fór í sturtu, borðaði og spilaði svo,“ segir Barnes í opinskáu viðtali við BBC.

Barnes, sem er 38 ára gamall, segir gríðarlegan fjölda af leikmönnum í NBA-deildinni reykja kannabis en hann faldi þetta ekki fyrir neinum í liðinu og þá allra sístþjálfaranum sínum, Steve Kerr, sem sjálfur reykti kannabis á sínum leikmannaferli.

Kerr, sem varð sjö sinnum NBA-meistari með Chicago Bulls og San Antonio Spurs, hefur sagt frá því hvernig hann notaði kannabis til að slá á þráláta bakverki sem hann glímdi við á seinni stigum ferilsins. Kerr hefur biðlað til NBA-deildarinnar um að slaka á refsingum vegna kannabisefna.

Í viðtalinu við breska ríkisútvarpið segir Barnes frá því að kannabis hefur verið hluti af lífi hans síðan að hann var fjórtán ára gamall en hann segist ekki vera fíkill.

Hann hafi einfaldlega notað efnin á sínum fjórtán leiktíðum í NBA-deildinni með sjö mismunandi liðum til að slá á verki, slaka á og til að hjálpa til með svefn. „Þetta róaði huga minn,“ segir Barnes.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×