Sport

Djokovic: Kalla þetta ekki vandamál þegar að það er til fólk sem sveltir til dauða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Novak Djokovic er í smá basli.
Novak Djokovic er í smá basli. vísir/getty
Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic segir vandamál sín innan vallar ekkert í líkingu við alvöru vandamál sums fólks sem lifir í fátækt og hvorki í sig né á.

Hann sættir sig því bara við vandamálin sín en hann komst áfram á opna franska meistaramótinu í gær með því að vinna 21 árs gamlan Spánverja, Jaume Munar, í þremur settum; 7-6, 6-4 og 6-4.

Þrátt fyrir að tapa ekki setti gegn þeim spænska var frammistaða Djokovic ekkert sérstök, en hann hefur ekki verið góður undanfarin misseri og var 20. í styrkleikaröðun mótsins.

Serbinn fór í aðgerð á olnboga í janúar og er ekki kominn almennilega af stað en hann hefur tvívegis á þessu ári tapað fyrir andstæðing sem var ekki á topp 100 í heiminum. Þá hefur Djokovic ekki unnið rirsramót í tvö ár.

„Ég er ekki að spila eins vel og ég vil vera að gera en ég ætla ekkert að gefast upp,“ sagði Djokovic á blaðamannafundi eftir leikinn en hann vildi annars lítið ræða þessi svokölluðu vandamál sín.

„Það er tilgangslaust fyrir mig að tala um einhver vandamál og hversu erfitt líf mitt er þegar það er fólk þarna úti sem sveltir til dauða. Svona er þetta bara sem íþróttamaður. Ég verða að sætta mig við þessa áskoranir,“ sagði Novak Djokovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×