Erlent

Leynilegar friðarviðræður í Afganistan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjöldi hermanna, jafnt í afganska stjórnarhernum sem og úr röðum talíbana, hafa fallið í átökum að undanförnu.
Fjöldi hermanna, jafnt í afganska stjórnarhernum sem og úr röðum talíbana, hafa fallið í átökum að undanförnu. Vísir/epa
Talíbanar eru sagðir hafa átt leynilegar friðarviðræður við afgönsk stjórnvöld. John Nicholson, herforinginn sem fer fyrir aðgerðum Bandaríkjahers í Afganistan, segir að alþjóðastofnanir og fulltrúar hinna ýmsu stjórnvalda hafi komið að viðræðunum.

Forseti Afganistan, Asraf Ghani, hvatti til friðarviðræðna í febrúar síðastliðnum. Þá svöruðu Talíbanar ekki kallinu en mikið mannfall í báðum fylkingum á síðustu mánuðum virðist hafa ýtt við leiðtogum þeirra.

Talíbanar hafa þó ekki látið af árásum sínum. Þeir réðust til að mynda á innanríkisráðuneyti Afghanistans í gær og ekki er langt síðan að þeir létu til skarar skríða gegn lögreglustöðvum og kjósendum í landinu.

Sjá einnig: Forseti Afghanistan býðst til að viðurkenna Talíbana

Á sama tíma er talið að um 50 Talíbanar hafi fallið í áhlaupi Bandaríkjamanna og afganska stjórnarhersins, sem framkvæmt var í suðvesturhluta landsins á dögunum.

Herforinginn Nicholson líkti ástandinu í Afganistan við Kolumbíu. Þar geisaði borgarastríð í um 50 ár áður en friðarsamningur var formlega undirritaður. Því væri ekki óheyrt að árangur gæti náðst þrátt fyrir áframhaldandi blóðsúthellingar.

Nicholson vildi ekki tjá blaðamönnum hvaða einstaklingar það væru sem sest hefðu við samningaborðið í leynilegu viðræðunum. Engu að síður sagði herforinginn að um væri að ræða nokkuð háttsetta Talíbana.

Talið er að tilboð forseta Afganistan, sem lagði til í febrúar að gera Talíbana að stjórnmálaflokki ef þeir létu af árásum sínum og viðurkenndu stjórnarskrá landsins, hafi verið jafnframt orðið til þess að liðka fyrir viðræðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×