Innlent

Tveir fluttir á sjúkrahús eftir slys á Þingvallavatni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi við Þingvallavatn í dag.
Frá vettvangi við Þingvallavatn í dag. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir slys syðst á Þingvallavatni í dag.



Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendi þrjá kafara ásamt kafarabíl og bát á vettvang að Þingvallavatni, nánar tiltekið að Villingavatni til suðurs, skömmu eftir hádegi í dag.



Varðstjóri hjá slökkviliðinu staðfesti í samtali við Vísi á öðrum tímanum að mennirnir hefðu náðst upp úr vatninu og að þeir hefðu verið fluttir á sjúkrahús. Hann gat hvorki gefið frekari upplýsingar um líðan mannanna né björgunaraðgerðir á vettvangi.

Vitni á vettvangi segir að sést hafi til tveggja manna á bát á vatinu í dag.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Þá voru björgunarsveitir sendar að Þingvallavatni eftir að tilkynning barst um slysið. Fjölmennur hópur björgunarsveitarmanna var staddur við Ölfusá við leit að manni sem fór í ána í nótt og voru hópar sendir þaðan að Þingvöllum.



Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við Vísi á þriðja tímanum að björgunarsveitir hafi lokið störfum á vettvangi við Þingvallavatn. Þær hafi aðallega verið í því að loka fyrir umferð til að greiða fyrir leið sjúkrabíla til og frá svæðinu. Þá segir hann að ekki hafi þurft að leita út um vatnið á bátum björgunarsveitanna þegar á vettvang kom en mennirnir fundust tiltölulega fljótt.



Davíð bjó ekki yfir upplýsingum um tildrög atviksins á vatninu en sagði lögreglu og sjúkraflutningamenn á staðnum. Ekki hefur náðst í Svein Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi, vegna slyssins en hann sagði í samtali við fréttastofu RÚV  eftir hádegi að hópur hafi verið synda syðst í vatninu þegar tveir urðu viðskila við hópinn.



Vitni á vettvangi sögðu í samtali við fréttastofu nú á þriðja tímanum að sést hefði til tveggja manna í bát á vatninu í dag.



Fréttin hefur verið uppfærð. Þá fengust upphaflega þær upplýsingar að leit stæði yfir að einum einstaklingi. Síðar fengust þær upplýsingar að um tvo einstaklinga var að ræða. Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við það.

Kafarabíll slökkviliðsins á leið á vettvang skömmu eftir hádegi.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Björgunarsveitir voru kallaðar að Þingvallavatni þegar tilkynning um slysið barst. Myndin er frá vettvangi í dag.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×