Enski boltinn

Eigandi Chelsea mátti ekki vera viðstaddur bikarúrslitaleikinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Abramovich á leik með Chelsea
Abramovich á leik með Chelsea vísir/getty
Eigandi Chelsea gat ekki verið viðstaddur þegar lið hans lyfti enska bikarnum um helgina því landvistarleyfi hans í Bretlandi er útrunnið.

Landvistarleyfi Roman Abramovich rann út í apríl og því þurfti hann að snúa aftur til heimalandsins, Rússlands. Yfirvöld í Bretlandi hafa tekið sér óeðlilega langan tíma í endurnýjun leyfisins samkvæmt heimildum Independent, en þó var beiðni um nýtt leyfi ekki hafnað.

Abramovich er 11. ríkasti maður Rússlands og á samkvæmt bandaríska blaðinu Forbes 10,8 milljarða bandaríkjadollara. Hann byggði upp ríkidæmi sitt á olíuiðnaði.

Chelsea hefur verið í eigu Abramovich síðan 2003 og hefur hann eytt miklum fjármunum í uppbyggingu félagsins. Síðan Abramovich tók við hefur líftími knattspyrnustjóra hjá Chelsea styst til muna en þó hefur félagið unnið fimm Englandsmeistaratitla, fimm bikarmeistaratitla, þrjá deildarbikarmeistaratitla, Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA á þeim tíma.

Núverandi knattspyrnustjóri Chelsea, Antonio Conte, er einmitt í óvissu um hver framtíð hans er en það hefur verið mikið í umræðunni að hann fái ekki að halda áfram starfi á Stamford Bridge.


Tengdar fréttir

Skuggi á hús einnar fjölskyldu gæti eyðilagt drauma Abramovich

Roman Abramovich, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, er með áætlanir um byggingu glæsilegs nýs leikvangs sem mun kosta í kringum milljarð punda og verða dýrasti leikvangur í Evrópu. Þær áætlanir eru hins vegar í hættu vegna einnar fjölskyldu sem býr í nágrenni Stamford Bridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×