Lífið

Fyrrverandi forsetahjónin gera samning við Netflix

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Obama-hjónin framleiða efni fyrir streymisveituna Netflix.
Obama-hjónin framleiða efni fyrir streymisveituna Netflix. vísir/getty
Streymisveitan Netflix greindi frá því í dag að í höfn væri samningur við fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, Barack og Michelle Obama. Á næstu árum munu þau framleiða efni fyrir veituna.

Michelle og Obama koma til með að starfa undir hatti framleiðslufyrirtækisins Higher Ground Productions. Obama-hjónin og streymisveitan gerðu með sér samning þess efnis að Obama og Michelle væru frjálst að framleiða þáttaraðir, heimildamyndir og kvikmyndir í fullri lengd á næstu árum.

Með samningnum er hjónunum ljáð rödd á öðrum og óhefðbundnari vettvangi en þau eru vön frá forsetatíð Obama.

Barack Obama auðnaðist að hitta margt áhugavert og hrífandi fólk þegar hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna. Það hafi með því ánægjulegasta sem Obama gerði í starfinu að deila afrekum og skilaboðum þessa fólks með fjöldanum í krafti stöðu sinnar.

„Það er þess vegna sem við Michelle erum svo spennt að vinna með Netflix – við vonumst til þess að geta varpað skæru ljósi á hina hæfileikaríku, hvetjandi og skapandi sem hafa getu til að auka samkennd fólks og skilning. Við viljum hjálpa til við að deila sögum þeirra með gjörvallri heimsbyggðinni,“ segir Obama.

Framkvæmdastjóri Netflix, Ted Sarandos, sagði að Obama-hjónin væru í einstakri stöðu til bæði uppgötva áhugavert fólk og varpa frekara ljósi á frásagnir þeirra sem láta gott af sér leiða í samfélaginu.

Fréttastofa AP og Reuters greindu frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×