Skoðun

Jafnréttisvæðum borgina!

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar
Jafnréttisskóli Reykjavíkur er frábært fyrirbæri og þar hefur verið unnið gott starf að innleiðingu jafnréttismenntunar í skólum borgarinnar. Margir grunn- og leikskólar vinna með jafnréttishugsjónina í sínu starfi og það er vel. En betur má ef duga skal.

Það er kveðið á um jafnréttismenntun á öll skólastigi í landslögum og í námskrám, þar sem einn af grunnþáttum menntunar er jafnrétti. Það má leiða að því líkum að stærsta einstaka aðgerðin í jafnréttismálum, væri að innleiða markvissa jafnréttismenntun á öll skólastig. Þannig væru allir kennarar leiðtogar í jafnréttismenntun, og myndu vinna með jafnrétti í vali á námsgögnum, í samskiptum við nemendur og í aðferðum við kennslu. Vitaskuld eru margir kennarar að gera einmitt þetta, en til að árangurinn verði sem mestur, þurfa allir kennarar að hafa forsendur til þess arna. Að bjóða starfsfólki, kennurum og stjórnedum uppá ráðgjöf og menntun í jafnréttisfræðum þannig að skólar vinni að eflingu jafnréttisvitundar í öllu sínu starfi, innan og utan kennslustofunnar.

Reykjavíkurborg ætti að vera leiðandi afl í innleiðingu jafnréttismenntunar í leik- og grunnskólum borgarinnar með Jafnréttisskóla Reykjavíkur í broddi fylkingar. Kvennahreyfingin vill ráða 10-15 sérfræðinga til Jafnréttisskólans til að  vinna að innleiðingu jafnréttis í skólum borgarinnar í samvinnu við kennara og stjórnendur. Þessir sérfræðingar þurfa að vera núverandi kennurum og skólastjórnendum til halds og trausts, hanna fræðslu og námsefni fyrir öll skólastig og taka þátt í henni eftir þörfum.

Börn þurfa fræðslu um skaðleg áhrif staðalmynda og hvernig hægt er að verjast þeim. Þau þurfa að fá miklu ítarlegri fræðslu um mörk og virðingu í nánum samskiptum og þau þurfa þjálfun í að greina og gagnrýna þau skilaboð sem samfélagið sendir þeim stöðugt um tilhlýðilega hegðun. Með góðri jafnréttisfræðslu getum við stuðlað að hamingjusamari og sterkari börnum og fjölbreyttari viðhorfum í samfélaginu. Fjárfestum í framtíðinni með jafnréttisvæðingu grunn- og leikskóla – nemendum og samfélaginu öllu til heilla.

Höfundur skipar 4. sæti Kvennahreyfingar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×