Erlent

Segir engan annan kost í stöðunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Federica Mogherini.
Federica Mogherini. Vísir/AFP
Federica Mogherini utanríkismálastjóri Evrópusambandsins segir að enginn annar valkostur sé í stöðunni í stað kjarnorkusamkomulagsins við Íran. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddi næstu skref ríkisstjórnarinnar gagnvart Íran í ávarpi fyrr í dag. Tilkynnti hann að Bandaríkin myndu beita hörðustu refsiaðgerðum í sögunni gegn Íran. Donald Trump, bandaríkjaforseti tilkynnti í síðustu viku að Bandaríkin myndu draga sig úr kjarnorkusamningnum sem Bandaríkin ásamt fleiri þjóðum gerðu við Íran árið 2015.

Í yfirlýsingu sinni segir Mogherini að samningurinn hafi verið niðurstaða áratuga flókinna samningaviðræðna.  

„Ræða Pompeo utanríkisráðherra sýndi ekki fram á það hvernig það að hverfa frá kjarnorkusamkomulaginu hefur gert eða mun gera heimshlutann öruggari fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna,“ sagði utanríkismálastjórinn í tilkynningu sinni.

„Samningurinn tilheyrir alþjóðasamfélaginu og naut stuðnings öryggisráðs sameinuðu þjóðanna. Alþjóðasamfélagið ætlast til þess að allir aðilar standi við skuldbindingarnar sem þeir gerðu fyrir meira en tveimur árum síðan.“

Hún segir því einfaldlega engan annan kost í stöðunni en samkomulagið sem Trump sagði Bandaríkin frá fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir

Trump dregur Banda­ríkin út úr kjarn­orku­samningi stór­veldanna

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Pompeo boðar aðgerðir gegn Íran

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í ræðu sinni aðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×