Skoðun

Sýndarlýðræði Reykjavíkurborgar

Skúli J. Björnsson skrifar
Við íbúar við Eikjuvog í Reykjavík vorum að vonum glöð að sjá loks glitta í að gangstéttin við austanverða götuna yrði endurgerð eftir áratuga bið. Hún var orðin hættuleg, brotin og skemmd og hafði valdið slysum.

Reykjavíkurborg réðist í þessar framkvæmdir sumarið 2017. Á sama tíma voru okkur íbúum send tilkynning um fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Eikjuvogi 27 - lítillar, gróinnar lóðar sem sett hefur skemmtilegan svip á þessa rólegu götu.

Við fengum senda kynningu á fyrirhugaðri framkvæmd og var kynntur réttur okkar til að gera athugasemdir. Allir íbúar Eikjuvogs og aðliggjandi gatna sem náðist í skrifuðu undir mótmælaskjal gegn því að reist yrðu há tvö hús með þremur íbúðum á lóðinni. Við neðanverða götuna eru eingöngu einbýlishús utan eins húss og þessar byggingar eru mikið lýti á þeirri götumynd.

Slysagildran að Eikjuvogi.
Til marks um vanvirðingu borgaryfirvalda á rétti okkar íbúanna og hunsun á íbúalýðræði var gangstéttin EKKI steypt fyrir framan lóðina að Eikjuvogi 27! Þar hefur verið í allan vetur verið gryfja sem fyllist af vatni, ís og snjó og veldur gangandi fólki vandræðum svo að ekki sé talað um hjólandi vegfarendur!

Yfirvöld Reykjavíkurborgar voru þess fullviss að mótmæli íbúa við breytingu á þessu deiliskipulagi myndi engu breyta og þessi hús yrðu reist hvað sem tautaði og raulaði.

Þessi ráðstöfun borgarinnar er nú í kæruferli hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Á meðan verður slysagildra þessi vitnisburður um íbúalýðræði sem er bara til í glærusjóum.

Skúli J. Björnsson framkvæmdastjóri

Eikjuvogi 29




Skoðun

Sjá meira


×