Innlent

Helmingur andvígur vegatollum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Stuðningur við innheimtu veggjalda jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum.
Stuðningur við innheimtu veggjalda jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum. Vísir/GVA
Töluverð andstaða er gegn innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á íslandi, samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls sögðust 50 prósent svarenda anvíg innheimtu slíkra gjalda en 31,4 prósent hlynnt henni. Þá hefur stuðningur við slíka innheimtu aukist um sex prósent frá því í apríl 2017. 

Andstaða við innheimtu veggjalda var minnst á meðal svarenda á aldrinum 18-29 ára (41%) en þeir lýstu einnig í mestum mæli yfir stuðningi við slíka innheimtu (36%). Mest var andstaðan á meðal svarenda á aldrinum 30-49 ára (56%) og 50-67 ára (51%). Stuðningur við innheimtu veggjalda jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum.

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkra skiptingu á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Miðflokks (63%), Flokks fólksins (63%) og Pírata (60%) kváðu mesta andstöðu gegn innheimtu veggjalda en alls sögðust rúm 52% stuðningsfólks Flokks fólksins mjög andvíg slíkum gjöldum. Mestan stuðning við innheimtu veggjalda var að finna á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (47%) og Sjálfstæðisflokks (45%).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×