Fótbolti

Kane segir Englendinga hafa lært af tapinu gegn Íslandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gömlu samherjarnir hjá Tottenham berjast um boltann í leik Íslands og Englands á EM.
Gömlu samherjarnir hjá Tottenham berjast um boltann í leik Íslands og Englands á EM. vísir/getty
Harry Kane, fyrirliði Englands, segir að Englendingar hafi engu að tapa á HM. Hann segir enga pressu sé á liðinu, England hafi ekki unnið stórmót í lengri tíma og segir leikmenn liðsins ætli að njóta þess að spila.

„Við höfum átt mjög góð lið síðustu árin og þetta hefur ekki gengið nógu vel á stórmótum undanfarin ár,” sagði nýjasti fyrirliði Englendinga.

„Við höfum ekki unnið stórmót síðustu 50 árin svo það skiptir ekki máli hversu góð liðin hafa farið, við höfum ekki verið nægilega góðir.”

„Frá okkar sjónarhorni þá höfum við engu að tapa svo við förum þangað og ætlum að njóta þess að spila.”

„Þetta er ótrúleg upplifun. Ég er viss um að við munum líta til baka á þetta mót þegar við erum hættir og muna eftir öllu, svo afhverju ekki að gefa allt sem þú átt?” sagði framherjinn snjalli.

Að lokum var Kane spurður út í tapið gegn Íslandi á EM 2016 en Ísland sló út England í 16-liða úrslitunum eins og allir vita. Hann segir Englendinga hafa lært sína lexíu.

„Við verðum að spila betur en þá. Við spiluðum ekki nógu vel og okkur var refsað. Þegar þú spilar á stórmótum geturðu ekki verið á 75% hraða. Þú þarft að gefa 110% í hvern einasta leik.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×