Erlent

Theresa May minntist þeirra sem fórust í árásinni í Manchester

Birgir Olgeirsson skrifar
Theresa May við tré vonar í Manchester þar sem minningarathöfn var haldin í dag vegna þeirra sem fórust í sprengjuárásinni í fyrra.
Theresa May við tré vonar í Manchester þar sem minningarathöfn var haldin í dag vegna þeirra sem fórust í sprengjuárásinni í fyrra. Vísir/Getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, var fyrr í kvöld viðstödd minningarathöfn vegna þeirra sem fórust í sjálfsvígsprengjuárás í Manchester í fyrra. Sprengjuárásin átti sér stað á tónleikum bandarísku tónlistarkonunnar Ariönu Grande á leikvanginum Manchester Arena 22. maí í fyrra þar sem 22 fórust.

Var um að ræða mannskæðustu árás í Bretlandi frá árinu 2005.

Vilhjálmur Bretaprins var einnig viðstaddur minningarathöfnina í Manchester í kvöld en til viðbótar við þá 22 sem fórust særðust 500 í árás hins 22 ára gamla Salman Abedi.

Á meðal fórnarlamba í árásinni voru sjö börn, það yngsta átta ára gamalt.

Minningarathöfnin átti sér stað í dómkirkjunni í Manchester og stóð yfir í um klukkustund. Ásamt minningarathöfninni var fórnarlambanna minnst með mínútuþögn á meðal allra Breta. Vilhjálmur Bretaprins las upp úr Biblíunni og hitti aðstandendur fórnarlambanna.

Theresa May ritaði grein um árásina sem birt var í síðdegisblaðinu Manchester Evening News Þar sagði hún árásina vera viðurstyggilegan heigulshátt.

„Henni var ætlað að skjóta ótta í hjörtu okkar og vega að gildum okkar og lífsháttum í einni af okkar líflegustu borgum,“ sagði May en bætti við að tilraun árásarmannsins til að buga Breta hafi mistekist.

Sprengjuárásin í Manchester var ein af fimm árásum í Bretlandi í fyrra þar sem alls 36 létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×