Skoðun

Gleðilegt sumar

Davíð Þorláksson skrifar
Pimm‘s er drykkur sem er notaður í samnefndan vinsælan enskan sumarkokkteil sem mér og nokkrum vinum finnst ómissandi á þessum árstíma. Áfengisverslanir ríkisins selja hann ekki og því ákvað ég að kaupa nokkrar flöskur þar sem ég var staddur í London síðastliðinn sunnudag. Hver flaska kostaði 1.739 krónur. Ríkið leyfir mér bara að taka eina lítersflösku tollfrjálst til landsins, ef vínandi er meira en 21% af flöskunni, og því gaf ég mig fram við tollverði ríkisins á Keflavíkurflugvelli. Þeir innheimtu skilagjald, áfengisgjald og virðisaukaskatt, alls 4.104 krónur á flösku.

Allir sem framleiða, selja og flytja Pimm‘s, og öll efnin sem fara í framleiðslu þess og flöskunnar sem það er í, taka því til sín 30% af verðmæti vörunnar á meðan íslenska ríkið, sem leggur ekkert af mörkum, tekur 70%. Í þessu tilfelli, að minnsta kosti, þjónar gjaldið heldur engum forvarnartilgangi. Enginn áfengissjúklingur myndi standa í því að fara til Englands til að kaupa Pimm‘s, skera niður jarðarber, gúrkur og appelsínur og merja mintulauf og blanda svo öllu saman í límonaði til að svala fíkn sinni.

Þessi kaup eru gott dæmi um það hvernig ríkið er alltumlykjandi í lífi okkar. Það vill ráða því hvar, hvenær og hvernig almennar neysluvörur við kaupum og það vill taka af þeim 70% skatt. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju það þarf að hafa meira vit fyrir okkur en öðrum þjóðum og taka af okkur hærri skatta. Þetta verður samt vel fyrirhafnarinnar virði ef sumarið skyldi koma einhvern tímann.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×