Enski boltinn

Mourinho og Guardiola geta hugsað sér gott til glóðarinnar gegn Emery

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Emery og Guardiola á hliðarlínunni á Spáni.
Emery og Guardiola á hliðarlínunni á Spáni. vísir/epa
Arsenal tilkynnti um ráðningu nýs knattspyrnustjóra, Unai Emery, í morgun. Ráðningin hefur verið yfirvofandi síðustu daga en þeir sem ættu að gleðjast hvað mest yfir henni eru stuðningsmenn Manchester-liðanna.

Tölfræði Emery gegn Pep Guardiola og Jose Mourinho er nefnilega ekki góð. Eða réttara sagt hrikaleg. Hann hefur mætt þessum tveimur stjórum samtals fimmtán sinnum og aldrei unnið leik.

Emery og Guardiola hafa mæst tíu sinnum. Þar hafa sex leikir tapast og fjórir endað í jafntefli. Markatalan er 7-22 liðum Guardiola að vil.

Svipaða sögu er að segja gegn Mourinho. Þar eru leikirnir fimm, eitt jafntefli og fjögur töp með markatöluna 6-15.

Besta gengi Emery gegn stjórum andstæðinganna er gegn Jurgen Klopp en þeir hafa aðeins mæst einu sinni. Það var í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þegar Emery stýrði liði Sevilla. Sá leikur fór 3-1 fyrir Sevilla.

Öll þessi tölfræði þarf að sjálfsögðu ekki að þýða neitt þar sem nú fær Emery nýtt lið í hendurnar. Hins vegar stingur hún líklega aðeins í augun fyrir stuðningsmenn Arsenal.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×