Enski boltinn

Aron fær nýtt samningstilboð hjá Cardiff

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er talið mjög líklegt að Aron verði áfram í bláu næsta vetur
Það er talið mjög líklegt að Aron verði áfram í bláu næsta vetur vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson hefur fengið tilboð um framlengingu á samningi sínum hjá velska liðinu Cardiff City, en núverandi samningur hans rennur út í sumar. Þetta segir í frétt Wales Online.

Fyrr í vetur sagði Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, að hann ætti von á því að Aron yfirgæfi Cardiff í sumar tækist liðinu ekki að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Það tókst liðinu hins vegar svo nú er búist við því að landsliðsfyrirliðinn verði áfram í Cardiff.

Warnock á að hafa gefið Aroni og Junior Hoilett, sem einnig var boðin framlenging, nokkra daga til þess að fara yfir nýju samningana en búist er við niðurstöðu í samningamálum þeirra fyrir vikulok.

Aron Einar hefur verið á mála hjá Cardiff síðan árið 2011. Hann spilaði aðeins 20 leiki fyrir liðið í vetur þar sem meiðsli hafa hrjáð hann. Akureyringurinn er um þessar mundir í Katar í endurhæfingu, en hann gekkst undir aðgerð á hné í lok apríl.

Fari allt eftir óskum mun Aron Einar Gunnarsson leiða íslenska landsliðið út á völlinn í Moskvu þann 16. júní þegar Ísland mætir Argentínu á HM í fótbolta. 


Tengdar fréttir

Aron Einar sagður geta valið úr tilboðum frá fjórum löndum

Samningur Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða hjá Cardiff City rennur út í sumar og Aron hefur ekki viljað skrifað undir nýjan samning við velska liðið. Það streyma nefnilega til hans tilboðin samkvæmt fréttum í enskum fjölmiðlum.

Stuðningsmenn Cardiff ósáttir við Aron Einar

Landsliðsfyrirliðinnn Aron Einar Gunnarsson er kominn aftur í lið Cardiff City eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Endurkoman hefur þó ekki staðið undir væntingum og er kallað eftir því að Aron verði settur á bekkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×