Lífið

FM Belfast fengið greitt fyrir Iceland Airwaves

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves.
Frá tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves. vísir/ernir
Meðlimir FM Belfast hafa nú fengið greitt fyrir að spila á Iceland Airwavest 2017. Hljómsveitin greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni og segir jafnframt að allir tónlistarmenn sem áttu eftir að fá greitt hafi fengið kröfur sínar greiddar.

Meðlimir FM Belfast höfðu undanfarið látið óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlinum með að hafa ekki fengið greitt fyrir að spila á tónlistarhátíðinni síðastliðið haust og meðal annars varað aðra listamenn við því að spila ekki á hátíðinni nema gegn því að fá greitt fyrirfram.

Sjá einnig:Meðlimir FM Belfast óánægðir vegna vangreiddra launa frá Iceland Airwaves

Eggert B. Ólafsson, lögmaður, sem hefur séð um nauðasamninga fyrir rekstrarfélagið IA tónlistarhátíð ehf., sem fór í þrot fyrr á árinu, segir að FM Belfast og öðrum listamönnum sem áttu kröfur í félagið hafi verið greitt að fullu.

Um fimm til sex aðila var að ræða sem voru með lágar kröfur en höfðu sent reikninga inn seint, að sögn Eggerts. Spurður út í hvað séu lágar kröfur í þessu samhengi segir Eggert að kröfurnar hafi hlaupið nokkrum tugum þúsunda og upp í 200 til 300 þúsund.

„Þetta er meginreglan þegar það eru frjálsir samningar að þeir sem eru með lágar kröfur þeir fá greitt að fullu en þeir sem eru með kröfur upp á milljónir þeir fá hlutfall,“ segir Eggert.

Að sögn Eggerts er samningum vegna þrots IA tónlistarhátíðar ehf. að ljúka.

Það var ÚTÓN sem stofnaði IA tónlistarhátíð ehf. árið 2010 en rekstur hátíðarinnar síðastliðin tvö ár var afar þungur og skilaði milljóna tapi. Úr varð að Sena Live tók yfir rekstur hátíðarinnar og IA tónlistarhátíð ehf. var sett í þrot. Semja þurfti í kjölfarið um skuldir gamla rekstaraðilans við tónlistarmenn og aðra starfsmenn hátíðarinnar.

Tónlistarhátíðin heldur sama nafni en Sena Live heldur nú utan um reksturinn. Fyrirtækið keypti annars vegar eignir hátíðarinnar úr gamla rekstrarfélaginu og síðan vörumerki hátíðarinnar af Icelandair.



Uppfært klukkan 16:10: Fréttin var uppfærð eftir athugasemd frá Senu Live.





Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×