Innlent

Takast á um kynjakvóta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ræðukeppnin fer fram á Bryggjunni Brugghús
Ræðukeppnin fer fram á Bryggjunni Brugghús Vísir
Ungmennaráð UN Women stendur fyrir ræðukeppni á morgun, fimmtudaginn 24. maí í anda Morfís keppni en umræðuefni kvöldsins eru kynjakvótar.

„Skipta kynjakvótar máli? Hvað hafa þeir í för með sér? Umræðuefnið er umdeilt líkt og umræðan hefur sýnt undanfarin ár. Verður því spennandi að sjá hvort liðið nær að sannfæra dómara og áhorfendur,“ segir í tilkynningu frá Ungmennaráðu UN Women.

„Markmiðið er fá viðstadda til að velta fyrir sér umræðuefninu og vonandi mun það leiða til vangaveltna og vitundarvakningar“ segir Alexandra Ýr van Erven formaður Ungmennaráðsins.

Þá hefur Ungmennaráðið fengið með sér í lið sex ræðukonur sem allar hafa mikla reynslu, en þær eru Ásgerður Ólöf Ásgeirsdóttir, Bára Lind Þórarinsdóttir, Kristrún Helga Valþórsdóttir, Inga Steinunn Henningsdóttir, Sólborg Guðbrandsdóttir og Sædís Ósk Arnbjargardóttir.

Þær munu skipa tvö lið sem takast á um umræðuefni kvöldsins. Þá hafa einnig þrír reyndir Morfísdómarar boðist til að dæma keppnina.

Ræðukeppnin sjálf fer fram á Bryggjunni Brugghús þar sem húsið opnar 19:30. Aðgangseyrir er 500 kr og munu allir sem mæta eiga kost á því að vinna veglegan vinning. Allur ágóði rennur til verkefna UN Women sem miða að því að valdefla konur og stúlkur um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×