Erlent

MH17: Segja flugskeytið hafa tilheyrt rússneska hernum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Flugvélin var skotin niður yfir Úkraínu og er flak hennar afar illa farið eins og sjá má.
Flugvélin var skotin niður yfir Úkraínu og er flak hennar afar illa farið eins og sjá má. vísir/getty
Flugskeytið sem grandaði malasísku flugvélinni sem var skotin niður yfir Úkraínu sumarið 2014 tilheyrði rússneska hernum. Þetta er niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknarnefndar, sem Hollendingar leiða, en samkvæmt nefndinni kom flugskeytið frá 53. herliði Rússlands sem staðsett er í borginni Kursk.

Nefndin greindi frá þessum niðurstöðum sínum á blaðamannafundi í morgun.

Allir sem um borð voru í Boeing 777-flugvél Malaysian Airlines í flugi MH17 fórust þegar hún var skotin niður yfir Úkraínu. Vélin var á leiðinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

BUK-flugskeyti var notað til að skjóta vélina niður frá yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna, sem studdir eru af Rússum, í Úkraínu. Rússar hafa neitað að vopn frá þeim  hafi verið notuð til að skjóa vélina niður.

„Öll farartækin í fylgdinni sem flutti flugskeytið voru frá rússneska henrum,“ sagði Wilbert Paulissen, hollenskur nefndarmaður. Hann sagði rannsakendur hafa rakið fylgdina til 53. herdeildar rússneska hersins.

Flugvélin var skotin niður þegar átökin á milli úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna, hliðhollir Rússlandi, stóðu sem hæst.

Í október 2015 greindi hollensk rannsóknarnefnd frá því að BUK-flugskeyti, framleitt í Rússlandi, hefði skotið vélina niður. Í september ári síðar komst alþjóðlega rannsóknarnefndin að sömu niðurstöðu í frumrannsókn sinni.

Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra yfirvalda, sagði við BBC inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar nú að Rússar gætu ekki samþykkt þetta sem sannleikann í málinu.

„Ég þori að veðja að þú hefur ekki séð nein sönnunargögn,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×