Innlent

Tekist á um vantraust en samþykkt með miklum meirihluta

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ragnar Þór og Gylfi Arnbjörnsson hafa eldað grátt silfur. Fréttablaðið/Eyþór
Ragnar Þór og Gylfi Arnbjörnsson hafa eldað grátt silfur. Fréttablaðið/Eyþór
„Það var öflugur meirihluti fyrir þessu en í öllum stjórnum eru skiptar skoðanir, þegar um er að ræða svona stórar stjórnir,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Hann segir aðeins tvo stjórnarmenn af fimmtán hafa lagst gegnt vantraustsyfirlýsingu á Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, í gær. Einn hafi ekki tekið afstöðu, einn ekki svarað en ellefu samþykkt. Verkalýðsfélag Akraness lýsti einnig vantrausti á Gylfa í gær. Ragnar segir að stjórn VR hafi verið nauðugur einn kostur að lýsa vantrausti á Gylfa.

Sjá einnig: Stjórn VR treystir ekki forseta ASÍ

„Forsetinn virðist vera í sóló-hlutverki. Ætlar að fara að ræða við stjórnvöld án þess að hafa formlegt umboð frá félögunum eða stefnu. Við sáum okkur ekki annað fært en að lýsa því yfir að hann hafi ekki okkar traust til að fara með umboð okkar gagnvart stjórnvöldum.“

Forseti ASÍ er af VR og VLFA sakaður um að vinna gegn hagsmunum félagsmanna og hunsa ákall um breyttar áherslur.

„Eins og framganga forsetans hefur verið, í auglýsingaherferðum þar sem verið er að gera lítið úr kröfum um breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er dapurlegt að horfa upp á þetta. En þetta var líklega kornið sem fyllti mælinn, að ætla að fara einn að ræða við stjórnvöld án þess að telja sig þurfa til þess umboð,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson. 


Tengdar fréttir

Stjórn VR treystir ekki forseta ASÍ

Stjórn VR ber ekki traust til Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyrir hönd stéttarfélagsins og mun hann ekki tala í umboði þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×